mánudagur, október 24

Ný sjónvarpsstjarna fædd?

/*
Helvítis blogger var bilaður í allan gærdag, ég nenni hins vegar ekki að lesa yfir tímasetningar en þessi færsla á við laugardagskvöld.
*/

Í gegnum tíðina hafa atkvæði manna oft verið keypt á ódýran hátt með fríum
veitingum, og þá helst þeim er renna undan spenum Heiðrúnar í stríðum straumum.
Gísli Marteinn ákvað að reyna að leika þennan leik sem oft hefur reynst vel í
gærkvöldi og til að koma í veg fyrir að óharðnaðar sálir mundu láta blekkjast ákvað
ég að fórna mér og drekka í boði Gísla. Með því kom ég vonandi í veg fyrir að
einhver óstaðfastur fórnaði sínu atkvæði á altari Bakkusar, en áfengið sem ég og
nokkrir aðrir góðir menn innbyrtum hefði örugglega nægt í nokkur atkvæði.

Eftir þessa hetjudáð var ákveðið að halda á tónleika Bang Gang á Nasa en þegar á
Austurvöll var komið kom í ljós að röðin náði út að Alþingi. Óverandi
fæðingarhálfviti var fljótt tekin ákvörðun um að breyta áætlun kvöldsins og stefnan
þess í stað tekin á Hafnarhúsið þar sem rétt svo náðist í skottið á Jeff Who?. Að
sjálfsögðu náðum við partýlaginu, en skv. lögum og reglum Jeff Who? mega þeir víst
ekki spila það án þess að ég og Hlynur nokkur Grétarsson séu viðstaddir.

Nú, eftir að hafa skemmt okkur konunglega yfir partýlaginu (sem heitir réttu nafni
Barfly, en það er annað mál) ákváðum við að halda aftur í hetjuleiðangur til Gísla
og drekka nokkur atkvæði og var samansafnið af stórhættulegum frjálshyggjuplebbum
orðið gríðarlega umfangsmikið. Eftir að hafa hrært upp steypu í nokkrum þannig með
hugmyndum um stofnun fyrirtækis til að opna bjórflöskur (sem fékk miklar undirtektir
frá þeim er hana heyrðu) var haldið aftur í Hafnarhúsið á aðalnúmer kvöldsins, The
Zutons.

// Innskot: Nú er ég að fatta að þetta er dagbókarfærsla, held samt að ég haldi
áfram en bið alla þá er hafa móðgast afsökunar.

Allavega. Meðan að við Hlynur vorum að bíða eftir að Zutons mundu stíga á svið vatt
upp að okkur sér maður með sítt grátt hár. Í eftirdragi var hann svo með
myndatökumann með risastóra myndbandsvél. Frá því að ég hugsaði með mér "vá hvað það
væri fyndið ef hann mundi nú vilja taka viðtal við okkur" og þangað til hann bar upp
spurninguna "So guys, can I interview you" liðu ekki nema nokkur andartök og það
varð úr. Eftir að hafa látið upp úr mér e-a mestu þvælu í manna minnum (sem hljómaði
samt frekar trúanlega held ég, m.a. um að ég hefði farið á allar hátíðirnar og að
það að til væri gott reggí á Íslandi væri eins og belja á svelli (cow on ice að
sjálfsögðu) kom á daginn að mennirnir væru frá danska sjónvarpinu og væru að gera
heimildaþátt um Airwaves. Síðan skammaði ég þá fyrir að taka ekki viðtal við okkur á
dönsku, enda held ég að danski hreimurinn minn sé enn fagurri þeim enska. Eftir
nokkurra mínútna spjall á dönsku um Kim Larsen og álíka gleði tókust menn í hendur
og þökkuðu hver öðrum fyrir, að dönsku að sjálfsögðu. Ég hvet því alla lesendur
síðunnar úti í Danaveldi (sem skv. síðustu talningu hlaupa á þúsundum) sem og alla
þá sem njóta þess að vera með danska sjónvarpið á breiðbandi að fylgjast grannt með,
álíka vitleysu hef ég sjaldan tekið þátt í.

laugardagur, október 22

Skilaboð

Nú þegar eitt kvöld er eftir af Iceland Airwaves get ég ekki lengur orða bundist. Nú voru skv. upplýsingum frá Hr. Örlygi, skipuleggjanda hátíðarinnar, seld um 3000 armbönd á hátíðina. Af þessum 3000 armböndum má gróflega gera ráð fyrir að um 1500 hafa ratað á hendur útlendinga (ef eftirfarandi skilaboð eiga við þá, þá er ljóst að þeir eru þegar sokknir of djúpt) og venjulegra tónlistarunnanda.

Hinir 1500 gestirnir eru líklegast að hugsa akkúrat á þessari stundu:
"Úúúú, ég er svo indí, takið mig alvarlega, úúúú"

Við þetta fólk hef ég eftirfarandi að segja:
"Haldið fokking kjafti"


Ég mun þola þetta lið eina nótt í viðbót, en guð hjálpi mér ef ég sé eina helvítis manneskju með asnalega klippingu eftir að Airwaves lýkur, ég á eftir að missa mig...

miðvikudagur, október 19

Spörrer

Veit einhver þarna úti hvað varð um hina stórmerkilegu hljómsveit Buttercup?

sunnudagur, október 16

Ályktun

Ég sendi hér með frá mér eftirfarandi ályktun: Til eru fræ er óskaplega fallegt lag...

Ljúft

Fátt veitir manni meiri friðsæld en að segja nei þegar Gallup spyr mann hvort að þeir megi leggja fyrir mann nokkrar spurningar. Það gerði ég nú rétt áðan. Engin ástæða til að leyfa þessu liði að eyða tíma manns í e-a vitleysu...

Hörð barátta

Í dag hafa Pink Floyd og Sigur Rós háð harða baráttu um hvor hljómsveitin hafi gert betri tónlist til að hlusta á í þynnku.

Einhver með skoðun þarna úti hver standi uppi sem sigurvegari?

Sælar!

Ég vara lesendur eindregið við því að blanda saman rauðvíni, hvítvíni, absinth, bjór og Hot'n Sweet á sama kvöldinu. Ég veit til þess að það endaði illa hjá sumum í gærkvöldi...

þriðjudagur, október 11

Pakk

Í gær, sunnudag, hét ég för minni upp í geisladiskamarkaðinn í Perlunni. Sjaldan eða aldrei hafa hugmyndir Nietzsches um ofurmennið hlotið sterkari hljómgrunn í huga mínum en einmitt á þeim tíma sem ég eyddi þarna inni. Þarna var samankomið, vona ég í það minnsta, allt pakk landsins, og fyrir mig sem eyðir tíma mínum í að umgangast fólk eins og ykkur kæru lesendur var þetta vægast sagt óþægilegt. Plebbisminn var yfirgengilegur og margoft langaði mig að fara að fordæmi Megasar og afsaka mig meðan ég ældi.

Karlmaður á þrítugsaldri tók svo að sér að bíta höfuðið af skömminni fyrir aðra viðskiptavini plötumarkaðarins (að mér undanskildum, að sjálfsögðu (hógværðin uppmáluð, ætíð)) þegar hann sagði hárri röddi er hann stóð við hliðina á mér í B diskunum: "Nei sko, BON JOVI!!!". Svona lið er bara að biðja um að verða kýlt...

mánudagur, október 10

Eins og sagt var um Hannes Hafstein



Hún drepur fólk með glæsimennskunni...

föstudagur, október 7

Met...

... í fáránleika var líklegast slegið áðan þegar upp rann fyrir mér að ég fæ iðulega illt í eyrun þegar ég borða pistasíuhnetur. Ef þetta er ekki skrítið þá veit ég ekki hvað...

fimmtudagur, október 6

Lát...

...undan hópþrýstingi hefur átt sér stað og ég hef loksins látið undan þessu klukkunarbrjálæði sem gripið hefur íslensku þjóðina síðustu vikur. Ástandið var orðið þannig að ég gat ekki gengið óáreittur um ganga skólans né reynt að læra án þess að vera sífellt truflaður af æstum skríl sem þrýsti á mig að láta undan. Þar sem fyrirséð var að þetta mundi hafa skaðvænleg áhrif á einkunnir mínar á þessu misseri hef ég því ákveðið að láta undan og birta hér með fimm klukkunaratriði:

1. Í raun og veru hef ég ekki hugmynd um hvað mig langar að halda áfram að læra og hef ég þjáðst af óákveðni í þeim málum svo mánuðum skiptir. Mig langar að leggja stund á flestar tegundir verkfræði auk eðlisfræðinnar (og einnig stærðfræðinnar) sem ég nota tíma minn í núna og á sérhverjum degi fæ ég nýjar grillur í kollinn um hvað mig langar mest til að gera.

2. Forgangsröðum á verkefnum hjá mér er sjálfum mér óskiljanleg og hef ég gefist upp fyrir að reyna að ná e-m botni í hana. Þannig tók mig t.d. tvö og hálft ár til að ljúka við að mála herbergið mitt til þess eins að ég sé fram á að jafnlangur tími líði þangað til að ég eigi eftir að taka í því aftur (reyndar eru þetta nokkrar ýkjur, en ef ég held áfram að eyða tíma mínum í svona vitleysu held ég að þetta verði ágæt nálgun hjá mér...).

3. Ég man þann dag líkt og hann hefði gerst í gær sem ég keypti mér Sgt. Peppers Lonely Hearts Club plötuna (geisladiskinn reyndar, en það er ekki jafnrómantískst). Allt niður í smæstu smáatriði er tryggilega húðflúrað í huga minn, jafnvel fáránlegustu hlutir eins og það hvað ég borðaði í hádegismat.

4. Það eina sem ég eyði meiri tíma í á daginn en að læra er að hlusta á tónlist og á þessari stundu dettur mér í fátt í hug sem ég hef jafnmikið eða meira yndi af. Það að uppgötva og hlusta á nýja listamenn (og gamla að sjálfsögðu líka) er eitt af því sem gefur lífinu gildi sem. Í raun ætti það að vera öllum nokkur ráðgáta þar sem tónlist er í raun og veru ekkert annað en óhlutbundin sköpun annarra sem á sér í reynd enga fyrirmynd í neinu og það að hún geti valdið með fólki slíkar tilfinningar er eitthvað sem gaman er að velta sér upp úr. En það er önnur saga.

5. Oftast þegar ég finn fyrir þreytu í skólanum velti ég því mikið fyrir mér hvort borgi sig nú frekar að leggja sig þegar ég kem heim og læra eftir góða kríu eða drífa sig að læra og fara svo snemma að sofa. Í reynd veit ég ekki hvers vegna ég velti mér upp úr svona því ég hef fyrir löngu lært að lifa með því að ég á hvorugt eftir að gera, þess í stað á ég eftir að fara heim í tölvuna, láta frá mér einhverja svona vitleysu, læra svo langt fram á nótt og mæta þreyttur aftur í skólann daginn eftir.


Vona að þetta nægi til þess að ég fái frið í einkalifinu aftur, allavega sé ég á þessum skrifum að ég ætti að fara að taka til...

Til að taka svo þátt í þessari klukkgeðveiki munu eftirtaldir aðilar nú fá að þjást:
  • Grettir
  • Guðmundur Friðrik
  • Henrik Geir
  • Hildur
  • Skytturnar fimm
  • sunnudagur, september 25

    Jæja

    Ok, ég viðurkenni það.

    Það var ég sem kom þessum tölvupóstum frá Jónínu til Fréttablaðsins...


    P.s. ég er að vinna í þessum klukkmálum...

    föstudagur, september 23

    Helvítis

    Mannskemmandi heimadæmi...

    Guði sé lof fyrir Johnny Cash á stundum eins og þessum...

    miðvikudagur, september 21

    Smá misskilngingur

    Eftir að hafa lifað í misskilningi í allt sumar hef ég loksins sætt mig við það að það eru ekki Strumparnir sem slógu í gegn með laginu Lonely heldur bara e-r annar gaur. Fullkomin endurkoma Strumpanna í huga mínum var því á sandi byggð...



    Meðfylgjandi er myndræn skýring fyrir þá sem féllu í sömu gryfju og ég...



    laugardagur, september 17

    Fullkominn endir...

    ...á góðu djammi er að vakna og finna fyrir stóra, kalda, tveggja lítra kók inni í ísskáp. Sem er einmitt það sem ég gerði rétt í þessu. Ljúft.

    Annars var haldið í ansi hreint hressilega vísindaferð í gær sem endaði með því að ferðalangar rúlluðu sér eftir gólfinu út. Klukkan sjö um kvöldið. Olli það því að ég sannfærðist enn frekar að íslenska leiðin til að djamma er einkar heimskuleg, það að fara niður í bæ klukkan tvö að nóttu og hanga þar til sex að morgni er álíka gáfulegt og e-ð sem er mjög heimskulegt. Þess í stað voru nú allir komnir niður í bæ klukkan hálfellefu (margir jafnvel fyrr) og fólk komið upp í rúm ekki seinna en þrjú hálffjögur. Og svo var vaknað klukkan 10 í morgun og farið að reikna. Eða ekki...


    Nýju föt keisarans afhjúpuð: Ólíver sökkar, asnaðist loksins inn á hann í gær og geri það líklegast aldrei aftur...

    föstudagur, september 16

    Til þeirra er málið varða

    Þeir sem vilja vita hvernig það er að hafa talað við Mercury verðlaunahafa...


    ...geta fengið að vita það hjá mér.

    sunnudagur, september 11

    Þakkir

    Ég ætla að þakka þér óþekkti maður sem splæsti Grjónagrautsskoti á mig, Harald, Friðrik og Hermann á Ara í Ögri í gær.

    Grjónagrautsskot eru helvíti góð fyrir þá sem ekki vissu...


    Kosningaloforð 2: Ef ég næ kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins hyggst ég koma því í lög að áfengisskattur verður felldur niður á það áfengi sem
    áætlað er að nota á flokksskemtunum. Þegar fría áfengið rennur til þurrðar í partýunum sem ég ætla að halda (sem á að sjálfsögðu aðeins eftir að gerast í undantekningatilfellum, ætíð verður nóg af fríu áfengi keypt) verður því hægt að kaupa bjórinn á 50 kall, þökk sé Flokknum.

    fimmtudagur, september 8

    Kosningaloforð

    Þó að enn séu nokkrar vikur í fyrirhugaðan landsfund Sjálfstæðisflokksins hef ég engu að síður hafið kosningabaráttu mína og ætla að birta kosningaloforð hér á síðunni jafnt og þétt eftir því sem nær dregur kosningum. Það er því ekki úr vegi að gauka að eins og einu góðu loforði, en ef ég næ kjöri lofa ég...

    Fullt, fullt af bjórkvöldum fyrir alla sem eru í flokknum! Ásamt geðveikum böllum og sjúku stemmói!

    miðvikudagur, september 7

    Spurning

    Einhverjir fleiri en ég sem eru að pæla í að bjóða sig fram til formanns á næsta landsfundi Sjálfstæðismanna svona upp á flippið?

    fimmtudagur, september 1

    Pólitík

    Mikið hefur nú verið skeggrætt um framboð Gísla Marteins í efsta sæti í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna og sýnist sitt hverjum. Ljóst er að skelfing hefur gripið um sig í brjósti þeirra flokka er áður stóðu að Reykjavíkurlistanum enda ekki heiglum hent að etja kappi við jafnvinsælan og frægan einstakling og Gísli Marteinn hlýtur að teljast. Eldri borgarar þeir sem ekki eiga eftir að gefa honum atkvæði sitt í borgarstjórnarkosningunum ef hann sigrar prófkjörið sem allar líkur benda til, enda býr Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson yfir álíka kjörþokka og brotinn múrsteinn, eru teljandi á fingrum annarrar handar manns sem missti þrjá fingur í vinnuslysi auk þess sem að gegnsýrðir sjónvarpsáhorfendur af yngstu kynslóð kjósandi eiga eftir að kjósa síbrosandi fíflið sem áreitt hefur augu þeirra trekk í trekk síðastliðna misseri.

    Víst má telja að vinstrimenn þurfa nýjar áherslur ef þeir ætla sér að eiga roð í Gísla og glottið hans og vil ég því koma með eftirfarandi ábendingar handa þeim sem eru í innstu koppum stjórnmálaflokka og lesa þetta blogg:

    *Samfylkingin: Dagurinn sem að nokkur heilvita maður mun kjósa Steinunni Valdísi eða Stefán Jón sem borgarstjóra verður dagurinn sem að Logi Bergmann hermir eftir fatavali Vilhjálms Alvars en ekki öfugt. Það er meiri skortur á kjörþokka samankominn í þeim tveimur en öllum samansöfnuðum brauðskorti í sögu Sovétríkjanna. Nei nei nei, þetta mun aldrei ganga. Það er aðeins einn maður sem býr yfir því sem þarf til að sigra Gísla Martein og ég veit hver það er. Af einstakri miskunnarsemi ætla ég að deila með lesendum hver sá maður er, en það er að sjálfsögðu enginn annar en....


    HEMMI GUNN!

    Ljóst er að sérhverjum stjórnmálaflokki er mikill fengur í sjálfum keisara íslenskrar afþreyingar og munu fleiri mæta á sérhvern kosningafund með Hemma Gunn en á tónleika Metallica á sínum tíma. Hemmi á margt góðra vina sem gætu hjálpað honum í kosningabaráttunni, Rúnar Júl gæti mætt sem leynigestur með bassann sinn og Dengsi gæti komið og gefið börnunum sælgæti. Gleði og glens mun skína af stefnuskrá Samfylkingarinnar og þegar Hemmi næði kjöri sem borgarstjóri mun hann ná fram einstaklega góðum samningum við ríkisstjórnina um skiptingu tekna enda alþekkt að enginn getur sagt nei við hlátrinum hans Hemma. Sérhverjum borgarstjórnarfundi mundi svo ljúka á því að Hemmi kæmi með kveðjuna frægu, "Verið hress, ekkert stress, bless" og útvarp borgarstjórn mundi bola öllum öðrum útvarpsstöðvum af vinsældarlistum. Hreint með ólíkindum er að enginn hafi komið fram á opinberum vettvangi og viðrað þessa hugmynd og hygg ég á að senda hana til fjölmiðla við fyrsta tækifæri.


    *Vinstri Grænir: Sorrý Árni, en þetta er ekki að fara að ganga. Hér þarf virkilega á að halda mönnum sem kunna að kitla hláturtaugarnar því að stefnumálin gera það sjaldnast. Sprelligosa er þörf og það hina einu sönnu...



    RADÍUSBRÆÐUR
    (Því miður fann ég ekki mynd af Davíði Þór Jónssyni, þess í stað setti ég inn mynd af bjór eins og glöggir lesendur hafa vonandi tekið eftir...)

    ...munu svara kallinu. Meðlimir Radíusbræðra hafa sýnt það að þeir eru ábyrgir þjóðfélagsþegnar og Davíð Þór Jónsson getur kjaftað hvern sem er til án þess að hafa mikið fyrir því. Auk þess prýðir höfuð Steins Ármanns mikið rautt hár sem aldrei hefur verið talinn löstur á gallhörðum vinstrimönnum og því eru Radíusbræðurnir augljós kostur fyrir flokk sem þarf að sanna sig í næstu kosningum.


    Framsóknarflokkurinn: Við þessu síðasta vígi bændamenningarinnar á Íslandi blasir ekkert við nema dauði ef ekki verður gripið til aðgerða skjótt. Frekar mundi ég vilja eyða ævi minni á eyðieyju með 15 diskum af Greatest Hits með Limp Bizkit en Alfreði Þorsteinssyni enda löngum verið talinn leiðinlegasti maður í sögu mannkyns. Mikill skaði er nú þegar skeður og það er aðeins einn maður sem getur sparslað upp í sprungurnar í sál þessa fornfræga flokksins. Sá maður er að sjálfsögðu...


    ÓMAR RAGNARSSON

    Ómar hefur í gegnum tíðina verið óskabarn allrar þjóðarinnar og gamanvísur hans ættu að geta kveðið í kútinn alla mótspyrnu sem hægri menn eiga eftir að veita í kosningabaráttunni. Ómar þarf ekki annað en að hreyfa varirnar í sundur til að láta alla þá sem viðstaddir eru engjast um að hlátri og ein níðvísa í garð Gísla Marteins gæti gengið að kosningabaráttu hans dauðri. Ómar getur dansað og trallað lengur en Riverdanceflokkurinn á kókaíni auk þess sem að barnalög hans hafa innprentað í hug allrar íslensku þjóðarinnar að hann sé sá eini sem viti hvað hann syngur. Ómar Ragnarsson er verðugur kostur.


    Ljóst er að ef flokkarnir mundu fara eftir þessum snilldarlegu hugmyndum mínum yrði hættunni af því að fá trúð sem borgarstjóra klárlega aflýst og í stað hans mundi koma landslið íslenskra skemmtikrafta og allir mundu hafa gaman af. Opnuð yrðu leikhús út um hvippinn og hvappinn þar sem upprennandi skemmtikraftar fengu færi á að sýna listir sínar, engum mundi leiðast að sitja fastur í umferðinni því að útvörpun borgarstjórnafunda ylli því að fólk óskaði þess að lenda á rauðu ljósi og lengja þar með bílferðinni og á menningarnótt þyrfti ekki einu sinni að ráða skemmtikrafta því að þeir sætu hvort eð er allir í borgarstjórn. Mín leið er sú eina rétta og ef ekki verður farið eftir þessu, þá eru viðkomandi flokkar skipaðir eintómum hálfvitum.

    Að lokum ætla ég rétt að vona að enn leynist úti í hinum stóra heimi dyggir lesendur, annars eyddi ég þremur korterum af nóttinni í meira rugl en ég vil gera mér í hugarlund. Ég þakka öllum þeim sem lásu þessa grein til enda og vona að ég muni sjá mér fært um að henda inn færslum af og til í vetur. Og ef þið kommentið ekki neyðist ég til að slá ykkur með hafnaboltakylfu í hnakkann...

    laugardagur, júlí 30

    Abending

    http://platzmo.blogspot.com er vist heitasta sidan i bænum i dag (skv. Her&nu og Hus og hibyli).

    miðvikudagur, júlí 27

    Ef það hefur einhvern tímann verið tilefni...

    ...til að vitna í hina stórgóðu diskóhljómsveit The Pointer Sisters, þá er það núna.


    (The Pointer Sisters á góðri stundu í góðu glensi)

    "I'm so excited and I just can't hide it
    I'm about to lose control and I think I like it"

    Farinn á Interrail, þið verðið að reyna að skemmta ykkur næsta mánuðinn án mín...

    fimmtudagur, júlí 14

    Rostungurinn veðjar á tónlist

    Ég býð hér með lesendum í veðmál. Ég er tilbúinn til að veðja bjór á á að lagið Forever Lost með hljómsveitinni The Magic Numbers eigi eftir að slá í gegn á næstunni. Lagið hef ég gert aðgengilegt hérna.

    Einhverjir þarna úti sem taka þessu veðmáli?

    miðvikudagur, júlí 13

    Yfirlýsing

    Hér með lýsi ég því yfir að ég ætla ekki að kaupa neinar stórar verslunarkeðjur næstu sex mánuðina.

    þriðjudagur, júlí 12

    Magnaðir tónleikar

    Já, ég fór á Antony & the Johnsons í gær og þeir voru magnaðir.
    Já, ég tók í höndina á honum eftir tónleikana.
    Já, ég átti spjall við hann eftir tónleikana.
    Já, ég er ekki enn búinn að komast yfir það...

    þriðjudagur, júlí 5

    Nýr dagskrárliður

    Hér með kynni ég nýjan dagskrárlið: Rostungurinn kemur með tónlistarskúbb.

    Í þessum dagskrárlið hyggst ég vekja athygli á öllu því merkilega sem ég fatta þegar ég hlusta á tónlist, enda um auðugan garð að gresja til bloggfærslusköpunar. Enginn er óhultur, skögultennur Rostungsins hlífa engum, hvorki góðum né slæmum. Líta má á fyrri tónlistarskúbb sem ég hef skrifað sem upphitun fyrir þetta og ef ég hef ekkert betra að gera mun ég e.t.v. leita í gömlum færslum að gömlu skúbbi.

    Hefst þá skúbbunin.

    Skúbb 1: Lagið Float on með Modest Mouse fékk mikla útvarpsspilun á sínum tíma og töldu margir hana verðskuldaða. Lagið innihélt skemmtilegan takt sem þótti frumlegur og varð lagið því þokkalega vinsælt. Það sem hlustendur vissu hins vegar ekki var að taktinum úr laginu er stolið úr laginu Superstition með Stevie Wonder!

    Skúbb 2: Það virðist vera fátt sem hljómsveitir á borð við Interpol og The Bravery eru að gera núna sem Joy Division gerði ekki fyrir 25 árum síðan!

    Skúbbun lokið.

    Jæja kæru lesendur. Sammála eða ósammála? Er ég skúrkur eða hetja? Tjáið ykkur í athugasemdakerfið og ég mun ákveða hvort þið fáið að synda með Rostungnum eða ég bíti ykkur.

    Jæja

    Umfjöllun um langalangafa hverra fleiri er á Wikipedia?

    fimmtudagur, júní 23

    Heimskar auglýsingar

    Þegar ég er í vinnunni er ég oft í þeirri aðstöðu að geta hlustað á útvarpið á meðan ég vinn. Verður þá oftast fyrir valinu annað hvort X-FM ellegar X-ið. Báðum þessum stöðvum er haldið uppi af sömu fjórum lögunum en það er önnur saga sem lesa má í næsta bindi. Ekki slaufu. Hohoho.

    Nú er fimmaurabröndurunum lokið.

    Allavega. Þegar ég er að hlusta á þessi sömu fjögur lög í mismunandi röð er iðulega skotið inn auglýsingum eins og gerist og gengur á öllum útvarpsstöðvum nema Rondo 87.7. Enn og aftur tekst meirihluta íslensks auglýsingaiðnaðar að sanna fyrir mér algjört vanhæfi sitt enda eru þær auglýsingar sem berast til eyrna manns mest megnis rusl. Ein auglýsing öðrum fremur hefur þó vakið athygli mína fyrir heimsku, en sú auglýsing er komin frá gæðamatsölustaðnum McDonald's þar sem ástríða er lögð í sérhvern hamborgara. Auglýsingin hljómar svo:
    "McFlurry fæst aðeins á McDonald's"

    Nú vantar mig einungis heimilisfang til að senda Nóbelsverðlaunin á. Hvaða fávita dettur annað í hug en að McFlurry fáist einungis á McDonald's? Er e.t.v. stór hópur fólks þarna úti í hinum stóra heimi sem verður rosalega hissa þegar það fer í aðrar ísbúðir, pantar sér McFlurry til þess eins að verða fyrir þeim gífurlegu vonbrigðum að komast svo að því að McFlurry fáist aðeins á McDonald's? Var svo gífurlega mikill þrýstingur búinn að myndast á forráðamenn McDonald's á Íslandi (Lyst ehf.) að þeir sáu sig tilneydda til að fara að útvarpa auglýsingu til að leiðrétta þennan misskilning? Voru starfsmenn ísbúða landsins búnir að fá nóg af samtölum á borð við:

    Viðskiptavinur: Já ég ætla að fá einn McFlurry
    Starfsmaður: Nei því miður fæst McFlurry einungis á McDonalds
    V: Nei heyrðu mig nú, þá sleppi ég þessu bara
    Og svo rýkur viðskiptavinurinn út...

    og sendu McDonald's kvörtun? Ætti McDonald's ekki frekar að einbeita sér að því að það bjóði upp á fljótlegustu leið sem í boði er til að fá kransæðastíflu? Ég sé miklu frekar auglýsingar á borð við:
    "McDonald's - Og kransæðarnar springa"
    "McDonald's - Og þú hættir að geta hreyft þig"

    Nei, bara svona pælingar vinnandi manns...

    þriðjudagur, júní 21

    Góð mynd



    Ef vel er að gáð má sjá sjarmatröllin Agnar Darra Lárusson og Sigurjón Norberg Kjærnested bregða fyrir á þessari mynd. Tókst þeim að troða sér í Moggann eftir sigur í ræðukeppni grunnskólanna í 10. bekk og eru þeir ennþá að komast inn á skemmtistaði í VIP röðum útaf því. Vil ég því hvetja alla til að grípa hraustlega utan um þá tvo næst þegar að þeir rekast á þá á förnum vegi og óska þeim til hamingju með árangurinn, þeir eiga það skilið.

    (Ég fann s.s. þessa fyndnu mynd sem ég varð að koma á framfæri...)

    föstudagur, júní 17

    Geri aðrir betur

    Sextán þúsund kall fyrir að vera átta tíma í sólbaði í dag. Ekki hverjir sem eru sem gera svona góða díla. Ef þetta góða veður heldur áfram legg ég hins vegar til að síesta verði tekin upp á Íslandi, það er náttúrulega bara brandari að maður þurfi að leita í skugga sökum hita á Íslandi.

    Svo held ég að það megi með sanni segja að frumraun DJ Fiaskó hafi verið succes. Þetta var allavega hilvíti mikið stuð og DJ parið Fiaskó og Súkkes er komið til að vera...

    þriðjudagur, júní 14

    Söknuður

    Ég saknaði ykkar allra (nema Darra því hann var með mér) á sérstakri Sagafilm forsýningu á Batman Begins. Bömmer fyrir ykkur...

    laugardagur, júní 11

    Gaman

    Ég er skemmtilega útitekinn. Útivinna über alles. Vorkenni þeim hressilega sem þurfa að hírast inni í allt sumar í e-i súrri vinnu.

    Vinnubloggfærslur standa alltaf fyrir sínu, ég veit...

    þriðjudagur, júní 7

    Ljúf uppgötvun

    Það kvíslaðist um mig sæluhrollur í vinnunni í dag þegar ég áttaði mig á því að menn á borð við Dodda og Gretti væru að veiða og flaka fisk til að borga launin mín á sömu stundu og ég sat inni í upphituðum skúr í skjóli fyrir veðri og vindum og las sjálfsævisögu Bob Dylan.

    föstudagur, júní 3

    Afrek dagsins

    1. Fór upp í námsráðgjöf Háskóla Íslands áðan og talaði þar við námsráðgjafa, líklegast í fyrsta skipti á ævi minni. Á mig voru farnir að sækja bakþankar varðandi val mitt á næsta ári en eftir ágætt spjall við námsráðgjafann varð ég staðráðnari en nokkru sinni fyrr að skella mér í hátæknieðlisfræðina. Um leið og ég kom heim dreif ég mig svo í að skrá mig í hátæknieðlisfræðina næsta ár áður en mér snerist hugur og er vonandi að ég hafi ekki verið að gera einhver reginmistök með því. Þetta verður örugglega fínt.

    2. Mætti sprækur upp í 12 tóna og eyddi 6500 kalli á innan við hálfri mínútu. Miði á Antony & the Johnsons á NASA 11. júlí sem ég hvet alla til að mæta á og fjárfesting í disknum I Am a Bird now. Ég er að botnfíla þetta sem og langflestir þeir sem ég hef bent á þetta. Virkilega gaman að detta niður á svona gott efni og ég tilnefni diskinn nýkeypta hiklaust sem disk ársins, allavega enn sem komið er, og ljóst er að stórár er í vændum tónlistarlega séð ef hann á eftir að verða toppaður.

    fimmtudagur, júní 2

    Fyndið

    Ég er að hlusta á Duran Duran. Ég tel ekki miklar líkur á því að ég fari á tónleikana með þeim...

    Nýtt útlit

    Bömmer ef þú ert að skoða þessa síðu í IE, virðist virka ágætlega á öllu öðru og ég er þreyttur og nenni ekki að vesenast meira í þessu.

    Það var eitthvað meira sem ég ætlaði að segja en ég er búinn að gleyma því. Djúpt...

    miðvikudagur, júní 1

    Svona fyrir þá sem vildu vita

    Þá er þetta með bestu diskum sem gefnir hafa verið út í ár að mínu mati:



    Antony and the Johnsons - I Am a Bird Now


    Svíkur fáa...

    Töffarar helgarinnar

    Tveir menn hljóta að standa upp úr sem töffarar helgarinnar:

    1. Þorgrímur Þráinsson, sem gjörsamlega átti Júbílantaballið á laugardagskvöld eins og sést vel á
    þessari mynd.
    Viðlíka töffari hefur ekki sést hér á landi lengur en elstu menn muna og ljóst er að í huga hvers nýstúdents kom upp draumur um að vera álíka svalur og hann á júbílantaballinu eftir 25 ár og í huga hverrar nýstúdínu kom upp draumur um að fá einn dans við hann um kvöldið. Á óvart kom þó að vatsnbyssan víðfræga var ekki með í för og fékk reykingafólk því að stunda iðju sína óáreitt um kvöldið, þó að vísu hafi komist sá kvittur á kreik að hann hafi rifið rettu úr munni veislugests, traðkað á henni og sagt "Svona gera menn ekki". Sem er að sjálfsögðu rétt.

    2. Jói Fel

    Kappinn sá um allar veitingar í útskriftarveislu minni og mistókst að slá feilnótu líkt og vanalega. Álíka kræsingar hef ég ekki séð síðan að ég var viðstaddur veislur Loðvíks XIV í Versölum á sínum tíma eða þegar ég var staddur í Babættes Gæstebud. Meistarinn var meira að segja svo stórmannlegur að lauma með í veisluföngin nokkrum pökkum af hinu glænýja hafrakexi Jóa Fel sem er víst að slá í gegn í Hagkaupum þessa dagana. Enn þann dag í dag er ég að gæða mér á þessu gæðakexi og skil ég fullkomlega þær vinsældir sem hafrakexið hans Jóa er að öðlast, álíka hafrakexkökur hafa líklegast aldrei verið töfraðar fram.

    Annars er ég líklegast að fara að skila inn umsókn í HÍ á morgun, fresturinn til að benda mér á að gera e-ð flippað á næsta ári er alveg að renna út...

    fimmtudagur, maí 26

    Þrjár staðreyndir, tvær afleiðingar og eitt sörpræs

    Viðbjóóóóóóóóðslega góð:
    1. Joe Cocker
    2. Janis Joplin
    3. Bjór

    Afleiðigar:
    1. Woodstock myndin var sjúklega nett
    2. Kvöldið mitt var það líka, bjór + tónlist = JÁ

    Eitt sörpræs:
    1. Ég horfði á fótboltaleik og hafði gaman af. Auðvitað studdi ég Liverpool til að styðja sama lið og John, Paul, George og Ringo, jafnvel að maður fari að stunda það að leggja stuðning sinn á svona lið fyrst að það skilar svona góðum árangri. Auðvitað er það stuðningi mínum í kvöld að þakka að Liverpool vann, ef ég mundi halda svona einhverju áfram gætu það jafnvel orðið sigrar til frambúðar.

    Annað sörpræs sem ég gleymdi:
    1. Ég ákvað líklegast háskólanám á næsta ári undir áhrifum. Takmarki mínu tel ég mig því hafa náð þó að ekki hafi ég kastað upp á háskólanámið...
    2. Og ég kastaði ekki upp í kvöld. Hins vegar gerði ákveðinn maður það sem ekki verður nafngreindur hér....


    Ég er að fíla Woodstock. Alveg eru til e-r manneskjur á landinu sem ég væri til í að fórna til að hafa fengið að vera þarna. Og Joe Cocker og Janis Joplin eru viðbjóðslega góð...

    miðvikudagur, maí 25

    Loksins

    Held að mér hafi tekist það að vera sá síðasti til að skrifa bloggfærslu og lýsa því yfir hve mikill léttir það er að vera búinn í prófum. Já, það er ljúft.

    Þá er það bara að fara að pæla í hvað maður fer að gera næsta haust...

    sunnudagur, maí 22

    Djöfull ég veit ekki enn

    - eða hvað?

    Lúxus

    Aaa, ekkert sem jafnast á við hressa krakka á trampólíni með tilheyrandi öskrum í næsta nágrenni til að hjálpa manni við að halda einbeitingu svona undir blálokin á próflestrinum...

    Eurovision

    Djöfulsins tilberasmjör...

    föstudagur, maí 20

    Yfirlýsing

    Ég lýsi því hér með yfir að ég er ekki að fíl'etta...

    fimmtudagur, maí 19

    Djöfull

    Ástandið á mér núna fyrir þetta munnlega próf er álíka gáfulegt og að hafa skráð sig í pólska herinn 31. ágúst 1939...

    miðvikudagur, maí 18

    þriðjudagur, maí 17

    Tímamót

    Nýr kafli var skrifaður í skólagöngusöguna þegar ég lauk síðasta skriflega prófinu áðan. Ekki laust við að það marki nokkur tímamót enda einungis tvö munnleg kvikindi eftir. Það eru því 165 reglur, 76 skilgreiningar, 328 dæmi og einn maður sem eiga eftir að kljást fram á föstudag og nokkrar smásögur og ljóð sem berjast um athyglina við hið hámenningarlega Eurovision um helgina og síðan ekki söguna meir.

    Nú man ég eftir því hvað orðið Evróvisjón fer alveg skuggalega í taugarnar á mér. Þetta orðskrípi kom alveg örugglega fyrst fram hjá Gísla Marteini fyrir nokkrum árum og virðist því miður ætla að skjóta rótum í málinu. Nú hef ég löngum verið talsmaður þess að fyrir erlend orð sem berast til landsins séu smíðuð ný orð en þetta er fyrir neðan allar hellur. Hvers lags fæðingarhálfvita þurfti til að búa til þetta orð (held að svarið við þeirri spurningu sé að umræddur hálfviti sé Gísli Marteinn) sem hvorki er fugl né fiskur? Nú er Eurovision augljóslega samsett úr Euro og vision og því skiljanlegt að minnst sé á Evrópu í nafni keppninnar. Hins vegar finn ég visjón hvergi í minni orðabók og ég held að jafnvel í Sjittorðabók Marðar Árnasonar megi heldur ekki finna það orð. Hins vegar taka erkifíflin sem útbreiða fagnaðarerindið um þetta orð ekkert tillit þess og í tíma og ótíma má heyra auglýstan "Nýja Evróvisjóndiskinn" og "Evróvisjóntilboð". Legg ég því til að fundið verði nýtt orð fyrir þessa keppni ellegar að hún verði kölluð Júróvísjón. Evróvísjón er álíka þjált í eyrum og sandpappír og gerir engum gott. Ég sting því upp á að keppnin verði héðan á frá kölluð Evrógaulið og að Gísli Marteinn verði kýldur í magann fyrir að vera á góðri leið með að koma Evróvisjón inn í tungumálið.

    föstudagur, maí 13

    B-O-B-A

    Mugison er ofmetinn

    Núna veit ég...

    ...hvernig Ptólemeus leið í gröfinni þegar að sólmiðjukenningin kom fram. Hugmyndin um 12 tíma svefn var of góð til að geta staðist...

    fimmtudagur, maí 12

    Vísindaleg niðurstaða

    Löngum hefi ég velt vöngum yfir því hvernig sé að sofa í 12 tíma á meðan að á stúdentsprófum stendur. Nú veit ég það. Mæli með því eftir lestur undir tvö eðlisfræðipróf.

    miðvikudagur, maí 11

    Tvífarar?

    Þessi mynd minnir mig óstjórnlega á einhvern...

    þriðjudagur, maí 10

    Tartaros

    Bit tveggja ára leti er fast...

    mánudagur, maí 9

    Meiri 80's tónlist

    Þar sem að ég sé fram á að prófið verði sköll hef ég ákveðið að fara að hlusta á 80's tónlist eins og óður maður. Rakst ég á gamlan gullmola í gær, en það er lagið Tarzan Boy með Baltimora. Mæli ég eindregið með því lagi til að létta lund í prófatímanum og má finna það hérna.



    Merkilegt nok þá er Baltimora ekki hljómsveit heldur listamannsnafn Jimmy McShane sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

    Emotional meltdown?

    Að læra eðlisfræði nánast samfellt frá morgni langt fram á nótt. Finna 80's safndiska í geisladiskasafninu sínu. Blasta Kajagoogoo.

    föstudagur, maí 6

    Lygar fjölmiðla

    Sá dagur líður varla að ekki heyrist fréttir í fjölmiðlum um vaxandi offitu íslenskra barna. Svara er leitað við þeirri spurningu hvað valdi þessum vaxandi vanda og er hreyfingaleysi íslenskra barna oftast kennt um. Krakkar hangi inni og spili tölvuspil og fari ekki út úr húsi nema til þess eins að stíga upp í næsta bíl. Athuganir mínar síðustu daga benda hins vegar til þess að því miður er þetta ekki satt. Því miður fara íslenskir krakkar út ennþá að leika sér. Því miður segi ég, því undanfarna daga hefur verið ómögulegt að læra fyrir látum í krakkaskríl sem hefur komið sér fyrir rétt fyrir utan gluggann á herberginu mínu. Allan liðlangan daginn hamast þessi kvikindi með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi og tók þó út fyrir allan þjófabálk í gær þegar að fimm stelpur, á að giska 10 ára gamlar, fóru í öskurkeppni. Fyrir utan gluggann minn. Eða svona nánast. Á meðan að ég var að berjast við að lemja jarðfræðiþekkingu inn í hausinn á mér í þessu sóðalega góða veðri sem var í gær var æstur krakkaskríll að skemmta sér á minn kostnað. Sjaldan hef ég bölvað námsefni jafnmikið og sjaldan bölvað nokkrum krökkum jafnmikið. Ég vil því endilega hvetja alla foreldra barna á aldrinum 3-16 ára sem lesa þessa færslu að gefa börnunum sínum leikjatölvu og sjónvarp, í það minnsta á meðan að ég er að læra fyrir stúdentspróf.

    Einnig vil ég biðja ykkur kæru nágrannar ef þið eruð að lesa þetta að drullast til að banna börnunum ykkar að glamra á píanó klukkan átta á morgnana. Annað hvort er ég að reyna að sofa á þessum tíma eða að reyna að læra. Stanslaust píanóglamur á verkum sem ég er búinn að þjást við að hlusta á í nánast heilt ár hjálpar til við hvorugt. Og hættið líka að smíða. Eitt hamarshögg eða hljóð í vélsög á meðan að ég er að læra eðlisfræði um helgina og ég fer og rústa píanóinu ykkar með sleggju. Takk.

    Jammmjammm, alltaf jafngaman í prófum...

    Tónlist

    Fátt jafnast á við það eftir margra tíma nánast samfelldan lestur á jarðfræði að taka sér smá hlé frá lærdóminum og rokka með Black Sabbath hátt stillt í nokkrar mínútur.

    þriðjudagur, maí 3

    Djöfull

    Nú væri gott að eiga klukku sem gæti stöðvað tímann...


    Svo að maður vitni í sjálfan sig:"Tíminn er andstæðingur afreka" - Ásgeir, 2004

    mánudagur, maí 2

    Eins og John Fogerty og félagar í CCR sungu:



    "You know the night time
    Is the right time..."

    laugardagur, apríl 30

    Þræðir Skúnksins liggja víða...

    Hvern hefði grunað að jafnvel Laddi mundi falla fyrir eiturefnum Skúnksins?


    Tékkið á lagi númer 11 á þessum disk. Svakalegt...

    föstudagur, apríl 29

    Jæja

    Ekki nema bara hva, fimm stærðfræðipróf eftir. Og svo eitthvað meira...

    Niðurstaða lesturs fyrir sögupróf

    Djöfull var Jónas frá Hriflu mikill töffari!

    sunnudagur, apríl 24

    Nú segi ég eins og Megas...





    Afsakiði meðan að ég æli...

    sunnudagur, apríl 17

    Helgin

    Fátt jafnast á við djammsögur á bloggum og hér kemur því nýr dagskrárliður: Helgin í hnotskurn.

    Föstudagur:
    Matarboð. Þakka Gunna Jó gott boð. Ekkert sem nokkur manneskja sem var ekki á svæðinu nennir að lesa um þannig að ég ætla að sleppa því að skrifa um það.
    Afmæli hjá Hauki Abbador. Ekkert heldur sem nokkur nennir að lesa um sem ekki var á svæðinu.

    Tónleikar. Loksins e-ð sem gaman er að lesa. Ég og Grettir ákváðum að skella okkur á útgáfutónleika hinnar kynngimögnuðu hljómsveitar Trabant á Nasa, enda kostaði miðinn skitnar 500 krónur í forsölu. Eins og venja er var upphitunarhljómsveit og eftir því sem mér skildist var hér ný stúlknahljómsveit á ferð. Ég og Grettir mættum á svæðið 23:30 og hlógum að þessu þangað til að Trabant byrjuðu e-ð eftir miðnætti. Þvílíku og öðru eins rusli hef ég sjaldan orðið vitni að. Fyrir þá sem misstu af þessu, sem ég reikna með að hafi verið blessunarlega margir, voru þetta s.s. þrjár stelpur uppi á sviði og ein iBook fartölva. Fúttið fólst s.s. í því að tækninördið í þríeykinu gekk að tölvunni að loknu hverju lagi og setti á næsta takt sem flestir hefðu getað búið til í Fruity Loops tónlistarforritinu stórskemmtilega á innan við fimm mínútum. Og svo voru þær þrjár uppi á sviði að öskra og stynja í hljóðnema og dilla sér við. Dilla er úrdáttur, réttara væri að segja að þær hefðu dansað uppi á sviði dansa eftir sömu höfunda og samið hafa fyrir J. Lo og Britney Spears. Þrautæfðar hreyfingar juku enn á fáránleikann á þessu öllu saman og til að toppa allt saman voru þær voðallega artí-fartí málaðar. Og allavega ein með hárkollu. Þvílíku og öðru eins ripoffi á Peaches og allt til Velvet Underground hafði ég heldur aldrei orðið vitni að. Besta lýsingin á þessu var e.t.v. artí-fartí Nylon. Óbjóður. Nema hvað, til að toppa þetta allt saman virtumst við Grettir vera þeir einu sem sáu í gegnum þessi nýju föt keisarans. Allt artí-fartí lið bæjarins (og að sjálfssögðu fleiri) var mætt á svæðið og það kunni sko að meta þessa frábæru hljómsveit. Gagnrýnin í lágmarki, blekkingin í hámarki. Hörmung og smán. Hið eina sem sefjaði reiðina var vissan um það að við vissum betur og gátum hlegið að þeim. Og alveg rosalega er ég viss um að Sirkus var mannlaus eða jafnvel lokaður á meðan að á tónleikunum stóð...

    En jæja, eftir að þær tóku lokalagið sem við höfðum svo lengi beðið eftir, ekki vegna þess að við vorum spenntir að heyra lagið sjálft tók við biðin eftir Trabant. Þar sá ég líklegast mestu rokkstjörnudýrkun sem ég hef séð á íslenskri hljómsveit í langan tíma. Enda eiga þeir það líklegast skilið fremur en flestar aðrar íslenskar hljómsveitir. Góðir, mjög góðir, tónleikar. Og ég hef margoft eytt 500 kalli í meiri vitleysu en þetta.

    Og svo var það bara Akureyri morguninn eftir, ætli það sé samt ekki efni í nýtt bindi helgarsögunnar. Forvitnilegt væri samt að fá skoðanir þeirra sem lesa þessa síðu og urðu vitni að upphitunni fyrir Trabant á þessu rugli. Erum við Grettir einir um þessa skoðun eða er kannski loksins kominn tími til að e-r stigi fram fyrir skjöldu og hrópaði "En hann er ekki í neinum fötum", líkt og H.C. Andersen skrifaði á sínum tíma?

    þriðjudagur, apríl 12

    Í tilefni Grímu(r)balls



    "Kalli, ég skil við þig ef þú drullar þér ekki i þennan kjól og situr fyrir á myndum fyrir búningaleiguna mína..."

    sunnudagur, apríl 10

    Málsbætur óminnishegrans

    Í gærkvöldi átti ég ágætis stefnumót við óminnishegrann og fló hann með mér fram undir morgun. Á meðan á að fluginu stóð átti ég við hann prýðissamtal og eftir það samtal treysti ég mér til að setja fram eftirfarandi vísindalegu niðurstöður:
  • Dimissio verður 20. apríl. Þar munu allir 6. bekkingar drekka frá sér allt vit og rænu. Þar sem að drukkið verður frá sér allt vit skiptir engu máli hvað maður lærir þessa dagana, maður á eftir að vera búinn að gleyma því öllu þegar maður vaknar 21. apríl (eða 22. eins og sumir hafa lent í).
  • Þar sem að engu máli skiptir hvað maður lærir fyrir dimissio getur maður gert hvað sem manni sýnist fyrir dimmiteringu.
  • Þar sem maður getur gert allt sem manni sýnist er manni frjálst að leyfa óminnishegranum að læsa klóm sínum í mann og fljúga með mann á brott.
  • Þar sem að maður á hvort eð er eftir að leyfa óminnishegranum að læsa klóm sínum í mann er algjörlega ástæðulaust að streitast á móti því langt fram eftir öllu. Það veldur einungis samviskubiti sem spillir útsýninu á meðan að á flugi stendur.
  • Niðurstaða: Ég er að fara á grímuball og á söngkeppni á Akureyri og hvet alla til að gera slíkt hið sama með framangreindum atriðum úr samtali mínu við óminnishegrann. Stuð.

    Ég bið svo alla þá sem ná ekki meiningunni á bakvið óminnishegrann afsökunar.
  • þriðjudagur, apríl 5

    Hvítir hrafnar?

    Það er á svona stundum þegar veðrið er jafnyndislegt úti að ég þakka Guði fyrir að búa á Íslandi í stað þess að vera staðsettur aðeins sunnar á hnettinum. Snjór í apríl er alltaf jafnfrábær og ekkert veit ég meira gleðiefni en að þurfa að draga vetrarúlpuna aftur út úr fataskápnum eftir að maður er kominn í sumarjakkann.

    sunnudagur, apríl 3

    þriðjudagur, mars 29

    Síðasta Heimis færslan í bili

    Heimir Pálsson hefur löngum verið þekktur fyrir að skrifa afspyrnulélegar kennslubækur í íslensku. Færri vita hins vegar að hann er einnig liðtækur stjarneðlisfræðingur eins og eftirfarandi mynd sýnir:

    Þversögn

    Og sumir sóuðu æsku
    sinni í nám á meðan
    aðrir vörðu henni í vín.

    (Tómas Guðmundsson)



    Og enn aðrir nóttum
    í að lesa íslenskubækur.

    (Ásgeir Birkisson)

    mánudagur, mars 28

    Snorri Sturluson

    Þegar að maður á að vera að læra undir íslenskupróf fer maður að gera...

    Stopp. Þessi inngangur er þreyttur! Byrjum aftur...

    Ég var að leita að e-u efni um Snorra Sturluson á netinu sem gæti gagnast mér í próflestrinum. Rakst ég þá á ansi merkilega síðu en það var heimasíða kennara í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Jæja, þarna er e-r glósur um Snorra, en það sem vakti helst athygli mína var eftirfarandi mynd:



    Nú veit ég ekki með ykkur lesendur góðir, en ég hafði ekki alveg ímyndað mér Snorra Sturluson á þennan veg...

    sunnudagur, mars 27

    Elvis Presley



    Sennilega eru fáir tónlistarmenn sem eiga lög sem passa við jafnmörg tækifæri og Elvis Presley...

    föstudagur, mars 25

    Djúpar pælingar, mjög djúpar pælingar

    Íslenskupróf fá mann til að hugsa djúpt, mjög djúpt. T.d. áðan var ég að lesa Lestrarkver og ákvað að fá mér yfir því Marsstykki sem keypt var í e-i utanlandsferð hjá fjölskyldumeðlim. Um leið og ég beit í gegnum súkkulaðið fór ég að pæla. Nú vil ég benda fólki á meðfylgjandi mynd:

    Sko. Eins og flestir þeir sem bragðað hafa Marssúkkulaði (eins og ég geri ráð fyrir að flestir þeir sem lesa þetta hafi gert) er Mars samsett af þremur mismunandi birtingaformum sykurs. Utan um allt er súkkulaðihjúpur, og þegar honum lýkur tekur við karamella. Gott og vel. Hvað í andskotanum er þetta samt sem er fyrir neðan karamelluna? Frauð? Deig? Kítti? Ber þetta e-ð nafn? Úr hverju er þetta?

    Og afhverju hefur ekki risið upp alþjóðleg hreyfing sem krefst þess af Mars-M&M að upplýsa hvað þetta er? Og afhverju hélt ég ekki frekar áfram að lesa í íslensku í staðinn fyrir að pæla í þessu?

    fimmtudagur, mars 24

    Velkominn heim!

    Í tilefni af heimkomu heimsmeistarans fyrrverandi Bobby Fischer býður bandaríska sendiráðið á Íslandi, Laufásvegi, gestum og gangandi í heljarinnar heimkomuhátíð í kvöld. Boðið verður upp á léttar veitingar, Budweiser bjór, Ben&Jerry's ís, McDonalds og Cherry Cola. Lifandi tónlist, uppistand og hver veit nema Fischer sjálfur mæti á svæðið og taki létt fjöltefli.

    Bandaríska sendiráðið - sér um sína!

    Eurovision

    Alveg er ég viss um að við eigum eftir að vinna þetta í ár. Heyrði í fréttunum í gær að okkur sé spáð sigri á vinsælli áhugamannasíðu um keppnina, það eitt tryggir okkur sigur!

    Vinsamlegast athugið

    Ekki halda nein ammæli dagana 28. júlí til 27. ágúst. Ég verð úti og þætti mjög leitt að komast ekki.

    miðvikudagur, mars 23

    Nýtt útlit

    Þar sem ég hef ekkert betra við tímann að gera núna ákvað ég að eyða honum í að setja nýtt útlit upp á þessa síðu. Þeim sem líkar vel við breytingarnar mega þakka Heimi Pálssyni fyrir að gefa mér tíma til að gera þetta, án þess að bækur hans hengu yfir mér líkt og sverðið yfir Damokleusi forðum hefði ég án efa nýtt tímann í eitthvað nytsamlegra.

    Annars er það bara djamm á morgun. Síðan mun lestur fyrir stúdenstsprófið í íslensku gleypa sálu mína.

    sunnudagur, mars 20

    Biðraðir

    Biðraðamenning Íslendinga er magnað fyrirbæri. Til dæmis voru fleiri í röðinni fyrir utan Prikið síðustu nótt en inni á því.

    Löngu tímabærar á tenglalistanum hafa verið gerðar upp á síðkastið. Aldrei að vita nema að enn fleiri verði gerðar á næstunni. Ef ég nenni. Alveg eins og Helgi Björns söng í den.

    laugardagur, mars 19

    Dyravörður deyr (e. Death of a security guard)

    Endurgerð leikrits Arthurs Miller eftir Á. Birkisson.

    Staður: Röðin á prikinu
    Tími: Aðfaranótt laugardagsins 19. mars 2005

    Ásgeir labbar niður Laugaveginn ásamt Einari Búa. Á röðinni á Prikið hittir hann hluta Grammanna og ákveður að hitta hinn hluta Heimsborgaranna þar inni. Einar Búi hafði fyrr um kvöldið þurft að bíta í það súra epli að skilríki hans virkuðu ekki á staðinn og ákveður að halda heim á leið. Framhaldið varð eftirfarandi:

    E-r stelpur sem Ásgeir hefur ekki hugmynd um hverjar eru: "Hæ, varst þú ekki gaurinn í idolinu í gærkvöldi?"
    Ásgeir: "Ha?"
    E-r S:"Jújú, ég er viss um að ég sá þig í sjónvarpinu í gær. Þú ert gaurinn úr Idolinu"
    Á:"Jájá, ég var í Idolinu í gær"
    E-r gaurar fyrir aftan:"Hva, heldurðu bara að þú fáir að skjótast inn í röðina því að þú ert e-r sjónvarpsstjarna (alls ekki sagt í neinum illum tón)
    Á:"Já, það er tekið út með sældinni að vera Kalli Bjarni"
    Dyravörður:"Jæja, þið næst inn. Má ég sjá skilríki?"

    Hópurinn réttir dyraverðinum skilríki sín. Tíminn líður. Skilríki Ásgeirs eru skoðuð gaumgæfilega.

    Dyravörður:"Heyrðu, það er annar strákur búinn að nota þessi skilríki í kvöld. Annað hvort fer ég upp og næ í hann og við gerum e-ð vesen úr þessu eða þú sleppir því að koma inn í kvöld."


    Ásgeir skallar dyravörð og labbar inn.

    Á:"Reyndu að gera e-ð vesen úr þessu!"

    Síðustu tvær línurnar voru stórýktar. Annað er skrifað eftir besta minni.

    Gærkvöldið kenndi mér eftirfarandi:
  • Það borgar sig kannski ekki að vera með skilríki frá þeim sem þú djammar oftast með. Sérstaklega ekki þegar að þrír menn sem djamma oftast saman treysta á ein skilríki.
  • Dyraverðir eru skussar.
  • Eftir að ég snéri frá Prikinu rakst á Fúsa. Honum hafði verið kastað út því hann mundi ekki eftir í hvaða stjörnumerki hann átti að vera skv. skilríkjunum. Ef við samtvinnum þennan punkt við punktinn að ofan fáum við merkilega niðurstöðu. Þar sem dyraverðir eru skussar er nánast líffræðilega ómögulegt að þeir geti lagt á minnið hvaða stjörnumerki á við hvaða dag. Það að ætla að þeir geti munað svona flókna hluti er einfaldlega kjánalegt og því er ástæðulaust að vera tekinn á e-u svona. Það eitt að svara þeim strax veldur skammhlaupi í heila þeirra og kemur í veg fyrir svona.
  • Ef maður er búinn að eiga súra daga borgar sig ekki að gera tilraunastarfsemi við kaup á hvítvíni. Ratatoskr og gangaslagurinn, toppurinn á hatri almættisins á mér þessa dagana, gaf mér ástæðu til að ætla að vínið sem ég keypti mér væri ekki það besta og kom það frekar mikið á daginn.

    Hins vegar nýtti ég mér þekkingu mína á líkindareikningi og ályktaði sem svo að svona óheppni gæti ekki haldið áfram endalaust. Þegar ég hafði lokið við að fara í Ríkið áðan í Kringlunni ákvað ég að gefa skít í líkindaguðina og kaupa mér lottómiða. Til að kóróna allt saman, happaþrennu líka. Happaþrennan skilaði mér í 100 króna tapi. Ég hlýt að vinna í lottóinu í kvöld...
  • föstudagur, mars 18

    Textapæling

    Í tilefni af því að Megas á afmæli í ár hyggst ég endurskrifa viðlag lagsins Þótt þú gleymir Guði í samræmi við núverandi tíðaranda.

    Þótt þú gleymir Heimi Pálssyni
    Þá gleymir Heimir Pálsson ekki þér

    Hins vegar þá gleymir þú
    Öllu sem þú varst búin(n) að lesa
    Um leið og þú lokar bókinni


    Hygg ég að þetta verði sumarsmellurinn 2005, og slái jafnvel Macarena við í vinsældum.

    þriðjudagur, mars 15

    Merkisatburður

    Staður: Kaldársel
    Tilgangur: Skoða stjörnur
    Veður: Kalt
    Afleiðingar: Fætur teknir af við mjöðm vegna kalsára.

    föstudagur, mars 11

    Fiðluballið

    Fór fram í gær. Sjúk stemmning. Hófst á því að franski sjómaðurinn Roisant náði í mig og Gretti. Stefnan var sett á Domino's. Inn á Domino's löbbuðu þrír menn, tveir í smóking og einn í flippuðum, röndótt buxuðum sjakett. Þrír menn fengu ekki afgreiðslu. Líklegast hefur afgreiðslufólkið talið að hér væru vitleysingar á ferð og ætluðu ekki að láta ná sér á sama bragði og afgreiðslufólkið á Grillinu í Englum alheimsins. Endaði þó seint og um síðir að við fengum mat okkar afhendan og brunuðum með hann til móts við bekkjarfélaga okkar.

    Áður en farið var inn á Domino's kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér hvílík skemmtun það væri að fara þangað inn í þessum klæðnaði og ganga með staf í hönd. Þegar inn væri komið skyldi síðan labbað upp að afgreiðsluborðinu og beðið eftir starfsmanni. Þegar starfsmaðurinn væri kominn skyldi stafnum lyft upp og honum potað í starfsmanninn. Ekkert meira. Bara pota í almúgann. Slíka hrifningu vakti þessi hugmynd hjá mér að ég viðraði hana við einhverja sem ég talaði við á ballinu. Vakti þessi hugmynd líka hrifningu hjá þeim og víst er að þessi hugmynd verður ekki látin óhreyfð. Stefnt er að hópferð á Lækjartorg þar sem potað verður í fólk með staf.

    Rétt er að taka það fram að pizzuhugmyndin var ekki mín. Ég stakk frekar upp á snittum en einn heimsborgari má sín lítils á móti átta plebbum. Lýðræðið er rotnandi hræ. Eftir að matar hafði verið neytt var haldin hópferð nemenda Eðlisfræðideildar I til að skila heimadæmum í heimahús. Mæltist þetta einstaklega vel fyrir hjá Birgi (ég geri fastlega ráð fyrir því að allir sem lesa þetta viti um hvern er rætt) og höfðu allir sem málið snerti mikið gaman af. Eftir það var haldið niður í Iðnó.

    Sjálft fiðluballið var skemmtun frábær. Með fullt danskort og nóg af frjálsum dönsum voru sólar lakkskónna spændir upp og er mál flestra, þ.á.m. mitt, að sjaldan hafi ball verið jafnskemmtilegt. Eftir ballið var gengið fylktu liði kringum Tjörnina þessa stjörnubjörtu nótt og naut ég þar samfylgdar Maddýjar. Vegfarendur voru það heppnir að vera veifað af okkur (háaðalsveifi, jafnvel konunga- og drottningaveifi) og víst er að þegar stafapotshugmyndin verður framkvæmd verður þetta hluti af henni. Eftir ballið var svo haldið á Hressó, lent í hrókasamræðum við Línu og síðan haldið heim á leið.

    Frábært kvöld sem náði nýjum hæðum þegar mér tókst að sofa yfir mig í morgun.

    fimmtudagur, mars 10

    Páfi var einn í tölvulandi



    Páfi, páfi, já hann páfi tölvukall...

    miðvikudagur, mars 9

    Áskorun



    Hér með skora ég á e-n flippaðan strák í 6. bekk. Áskorunin felst í því að í stað þess að dansa á fiðluballinu á morgun á viðkomandi að spila á lüftgítar allan tímann, því eins og allir vita þá dansa strákar ekki.

    Verðlaunum heitið.

    ---

    Uppfærsla: Nú rétt í þessu (02:11) var Darri að stinga upp á að í stað lüftgítars skyldi leikið á lüftfiðlu. Tek ég athugasamd hans til greina og breyti áskoruninni hér með.

    þriðjudagur, mars 8

    Ójá



    I.K.Dairo er svakalegur tónlistarmaður, helsta stjarna juju tónlistarinnar í Nígeríu á 7. áratugnum og eini afríski tónlistarmaðurinn sem hlaut MBE orðu. I.K.Dairo er enn þann dag mest metni tónlistarmaður í sögu Nígeríu, en þrátt fyrir að hafa tekið sér hlé frá tónlistarsköpun á áttunda áratugnum kom hann fílefldur til leiks á þeim 10. og skemmti löndum sínum allt til dauðadags 1996. Því miður get ég ekki boðið ykkur lesendur góðir upp á tóndæmi, en ljóst er að öllum árum verður róið í þeim tilgangi að nálgast disk með honum fyrir næsta Heimsborgarafund.

    mánudagur, mars 7

    Fiðluballið nálgast óðfluga...



    ...skýrt merki um að maður sé að klára MR. Kæru 6. bekkingar, ég býð ykkar velkomna á grafarbakkann. Næsta stopp: Elliheimilið Grund.

    Þessi færsla er samin undir áhrifum All of My Love með Led Zeppelin af plötunni In through the outdoor, sem var einmitt þeirra síðasta plata með John Bonham innan borðs. Ætli þetta segi manni ekki bara að allt taki e-n tímann enda?

    Linkalisti uppfærður



    Loksins kom maður þessu í verk, þeim sem vilja kvarta er bent á næsta þjónustuborð (eða kommentakerfi). Annars er það helst að frétta að það er ekkert að frétta.

    fimmtudagur, mars 3

    Kvöldhugleiðing



    More Than This með Bryan Ferry og félögum í Roxy Music er yndislegt lag.

    miðvikudagur, mars 2

    Bloggleysi síðustu daga



    Er alfarið leti um að kenna. Hins vegar er ein saga sem ég hef viljað segja allt frá því á laugardaginn, en þá bar það helst til tíðinda að Villa Skúnkulaði tókst að vera fyndinn. Alvöru fyndinn, ekki bara vandræðalegþögn fyndinn. Varð ég fyrstur manna meðal gesta hjá Jóni Bjarna til að kveikja á hvað hafði gerst, og þegar ég mælti hin fleygu orð: "Villi, þú varst fyndinn" misstu flestir viðstaddir hökuna niður í gólfið. Einn maður missti þó ekki hökuna niður í gólfið, gestgjafinn sjálfur, þar sem að hann var vant við látinn og missti því af þessum einstaka atburði. Hef ég af þessu tilefni bætt inn nýrri málsgrein í ímynduðu skáldsöguna mina um Skúnkulaðið sem væntanleg er á markað í næsta lífi:
    "Og í þetta eina augnablik var Skúnkulaðið fyndið. Skömmu síðar var allt komið í samt horf."

    Síðan er víst að ég verð í sjónvarpinu í kvöld að draga í undanúrslit í Gettu Betur, og ég veit það jafnilla og þið afhverju ég er að skrifa um það hérna...

    Jæja, best að drífa sig í förðun.

    fimmtudagur, febrúar 24

    Um Tjarnarhringurinn



    Einhvern tímann þegar ég hef nægan tíma ætla ég að útlista ítarlega skoðunum mínum á þessu fyrirbæri sem Tjarnarhringurinn er. Í bili ætla ég hins að láta mér nægja að segja frá afrekum dagsins:
  • Bæting um tæpa eina og hálfa mínútu frá því síðast.
  • Hækkun á einkunn um einn og hálfan.
  • Yfirlið.
  • Þeim snillingi sem datt í hug að hrúga niður bekkjum við endastöðina á hringnum er hér með boðið í afmælið mitt. Án bekkjarins lægi ég líklega á botninum á tjörninni núna.
  • Hlaup orsaka minnisleysi og kenni ég því Tjarnarhringnum í dag alfarið um öll afglöp sem ég á hugsanlega eftir að framkvæma í væntanlegum prófum.
  • Þess virði? Dæmi hver fyrir sig...
  • þriðjudagur, febrúar 22

    Hitt og þetta



    Þar sem að ég nenni ekki að skrifa samfelldan texta verður bloggað í punktum í þessari færslu.

  • Endurbætur á Cösu urðu að heilmiklu verki sem rændu mann heilbrigði.

  • Melódjammið heppnaðist frábærlega. Smá skemmdir að vísu en það reddast. Vonandi. Þeim sem hafa ekki hugmynd um hvað ég er að tala er vinsamlegast bent á að gleyma þessum punkti.

  • Frábært djamm, ekki jafnfrábær vinna að sama skapi daginn eftir. Það að ætla sér að vinna upp nám í tölvufræði í vinnunni eftir lítinn svefn nóttina áður ráðlegg ég engum.

  • Fyrirlestur sem ég átti að flytja heppnaðist víst frábærlega er mér sagt. Ég var ekki viðstaddur flutninginn svo að allir brandarar dóu víst í fæðingu, ef þeir hefðu komið með hefði verið um annað Gettysburgarávarp að ræða...
  • Gagnrýni á háskólakynningar:
      Verkfræðikynningin: Góð kynning, blés lífi í eld verkfræðiáhuga MR-inga

      Læknisfræðikynningin: Ekki alveg jafn góð. Mjög ekki alveg...

      Félagsvísindakynningin: Löglega afsakaður

  • Ætli stefnan verði ekki tekinn á verkfræðina á næsta ári úr þessu...

  • Góður Ratatoskr í dag, við ákváðum að hafa smá spennu í þessu til að byrja með en rétt eins og Fönix forðum daga snérum við fílefldir til leiks á ný...

  • Skítlegt eðli virðist vera innrætt í fleiri forseta en forseta Lýðveldisins...
  • föstudagur, febrúar 18

    Norðurljós



    Nú rétt í þessu urðum við Skunkurinn vitni að mjög flottum norðurljósum, þeim flottustu í langan tíma.

    Magnað.

    fimmtudagur, febrúar 17

    Maður er svo flippaður...



    Eins gott að jarðfræðiguðirnir ljósti mig þekkingareldingu í nótt, annars munu spretta úr höfði mínu fullskapaðar heimatilbúnar kenningar á prófinu á morgun líkt og Aþena gerði hér forðum úr höfði Seifs.

    þriðjudagur, febrúar 15

    Óminnishegri!



    Læstu klóm þínum í mig og fljúgðu með mig inn í nóttina.


    Eitthvað þessu líkt hefði ég viljað hrópa áðan. Í stað þess sit ég klukkan tvö að nóttu og reyni að tjasla saman verkbók í eðlisfræði. Nick Drake er vel við hæfi á svona stundu...

    föstudagur, febrúar 11

    Úr dönsku hefti um líkindareikning:



    Fiasko!

    þriðjudagur, febrúar 8

    Pólitískt blogg



    Sat áðan fund með menntamálaráðherra ásamt kennurum Menntaskólans, fulltrúum nemendafélaganna og öðrum góðum gestum. Nú má hverjum og einum það fullljóst vera að önnur eins firra og að stytta framhaldsskólann hefur ekki borist til eyrna mér síðan að ég frétti að Bakkabræður ætluðu sér að bera inn ljós í húfum sínum. Þorgerður Katrín minnti mig á lélegan Sólbjartsræðumann sem samþykkti fyrir mistök að mæla með fyrirfram töpuðum málsstað, þrástagaðist á sömu punktunum sem að fundarmenn gleyptu að sjálfssögðu ekki við og vitnaði ótt og títt í álit ónafngreindra sérfræðinga, en jafnvel hinir slökustu Sólbjartsræðumenn hafa þó vit á því að skálda upp e-r nöfn á þá. Þorgerður átti ekki roð í fundarmenn þegar kom að spurningunum sem brunnu á vörum allra og uppskar fyrir vikið verðskuldað fliss (sem að hún reyndi að snúa gegn kennurunum, en þau orð sem engan þunga bera ná ekki í gegnum þykkan varnarskjöld fundarmanna). Það hljóta að teljast nýmæli ef að trúðar ætla sér að stjórna menntakerfi heillar þjóðar.

    Þau rök sem Þorgerður kom með voru í flestan stað mjög hæpin og ljóst er að aðaltilgangur styttingarinnar hlýtur að vera að lækka útgjöld ríkissin til menntamála, nokkuð sem ríkisstjórn Íslands ætti að skammast sín fyrir nú í upphafi 21. aldarinnar. Allt annað virðist vera framsett til að slá ryki í augu gagnrýnenda, en þegar rykstorminn hefur lægt hljóta flestir að sjá í gegnum blekkinguna. Ef augu mín voru opin fyrir fundinn þá eru þau opnari en landamæri Bandaríkjanna á 19. öld núna, og fullvíst að enginn þeirra sem láta sig málið varða ætla að sitja auðum höndum á næstunni. Eflaust gæti ég skrifað mun lengri færslu um þetta mál, en krefjandi stærðfræðipróf á morgun kallar (en að sögn ráðherra er stærðfræðikennslan á menntaskólastigi víst fyrst og fremst upprifjun á grunnskólastærðfræðinnni) og ég ætla að njóta þess að geta stundað krefjandi nám á framhaldsskólastigi á meðan að það stendur enn til boða. "Tími aðgerðanna er runninn upp" sagði Lenín,"Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan" sagði Roosevelt og "I'm so proud of it i put my name on it" sagði George Forman. Þessi síðasta tilvitnun átti alls ekki heima þarna. Aðgerðir ráðherra eiga að sama skapi alls ekki heima í upplýstu þjóðfélagi á 21. öldinni. Ég vil því að endingu klykkja út með hinum frægu orðum Caesars sem eiga jafnvel við nú í dag og þau áttu við í Rómaveldi til forna, auk þess sem ég bið lesendur vel að lifa og taka þátt í þeim aðgerðum sem framundan eru. En eins og Caesar sagði:
    Þorgerður Katrín - Þú söks!

    mánudagur, febrúar 7

    Merkisatburðarfrásögn í tilefni söguprófs



    7. febrúar 2005 verður lengi minnst í fyrirtækjasögu Íslands en þá stofnaði Vilhjálmur "Skunkur" Þórarinsson fyrirtækið Svik & Prettir ehf.

    Var það Vilhjálms fyrsta verk sem forstjóri fyrirtækisins að víkjast undan að veita námsmanni við Menntaskólann í Reykjavík, Ásgeiri að nafni, bjór á barnum (hvaða bar var reyndar ótilgreint), en loforð þess efnis hafði hann gefið í færslu á heimasíðu fyrirtækisins, http://blog.central.is/alvar, en síða þessi var einnig þekkt fyrir ýmiss konar kreditkortabrask, sukk og svínerí. Orðrétt á heimasíðunni stóð:

    "Tippaði í lengjunni áðan. Lagði vel undir. Ef Liverpool vinnur (sem ég efast ekki um), Tottenham vinnur (Haukur, það er eins gott að þínir menn taki þetta) og ef Arsenal vinnur þá vinn ég 11000 kall. Ef þetta gerist þá heiti ég hverjum þeim sem skráir sig fyrstur í gestabókina einum bjór á barnum þegar ég djamma með þeim einstaklingi næst."

    Ásgeir, verandi mesti áhugamaður um fótbolta á landinu að Valla sport einum undanskildum, brá undir sér betri fætinum og heimsóttu heimasíðu íslensku Barbarasamtakanna, fotbolti.net, og þar mátti m.a. annars finna eftirfarandi úrslit í leikjum er fram fóru 5. febrúar, eða tveimur dögum fyrir stofnun fyrirtækisins:
  • Liverpool 3 - 1 Fulham
  • Tottenham 3 - 1 Portsmouth
  • Aston Villa 1 - 3 Arsenal
    Almannarómur var á einu máli. Ljóst var að Skunkurinn ætlaði sér stóra kökusneið af undirheimum Reykjavíkur og því reið mikið á að tilraunir hans yrðu kæfðar í fæðingu. Tók höfundur þessarar færslu sig því til og beindi kastljósi sínu að glæpamálinu, ekki einungis í von um að það yrði upplýst heldur einnig til að vera öðrum sakleysingjum sem enn trúðu á hið góða í heiminum víti til varnaðar. Eina leiðin fyrir Skunkinn til að komast aftur á hina beinu braut hreinnar samvisku, siðferðiskenndar og hófsams lífernis var að gefa Ásgeiri þann bjór er hann fyrir löngu hafði lofað honum, ellegar mátti ljóst vera að Skunknum biði aðeins þjáning, fyrst í hinum veraldlega heimi en síðan eilífðardvöl í Hreinsunareldinum.

    Og þá var það bara spurningin, hvað ætlaði Skunkurinn sér að gera?

    Fylgist spennt með á Rostungnum...
  • Afreksmaðurinn Ásgeir



    Í dag er ég búinn að afreka þetta:
  • Vaknaði klukkan fjögur í morgun

  • Fékk mér tvær skálar af Kellogs Special K

  • Hljóp þrjá kílómetra

  • Og ég er á leiðinni í sund núna


  • Já, það má sko með sanni segja að morgunstund gefi gull í mund!

    laugardagur, febrúar 5

    Vísindaleg tilraun



    Í gær framkvæmdi ég vísindalega tilraun.

    Niðurstaða: Það er hægt að fara niður í bæ um helgar og vera á bíl á sama tíma. Merkilegt...