föstudagur, maí 6

Lygar fjölmiðla

Sá dagur líður varla að ekki heyrist fréttir í fjölmiðlum um vaxandi offitu íslenskra barna. Svara er leitað við þeirri spurningu hvað valdi þessum vaxandi vanda og er hreyfingaleysi íslenskra barna oftast kennt um. Krakkar hangi inni og spili tölvuspil og fari ekki út úr húsi nema til þess eins að stíga upp í næsta bíl. Athuganir mínar síðustu daga benda hins vegar til þess að því miður er þetta ekki satt. Því miður fara íslenskir krakkar út ennþá að leika sér. Því miður segi ég, því undanfarna daga hefur verið ómögulegt að læra fyrir látum í krakkaskríl sem hefur komið sér fyrir rétt fyrir utan gluggann á herberginu mínu. Allan liðlangan daginn hamast þessi kvikindi með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi og tók þó út fyrir allan þjófabálk í gær þegar að fimm stelpur, á að giska 10 ára gamlar, fóru í öskurkeppni. Fyrir utan gluggann minn. Eða svona nánast. Á meðan að ég var að berjast við að lemja jarðfræðiþekkingu inn í hausinn á mér í þessu sóðalega góða veðri sem var í gær var æstur krakkaskríll að skemmta sér á minn kostnað. Sjaldan hef ég bölvað námsefni jafnmikið og sjaldan bölvað nokkrum krökkum jafnmikið. Ég vil því endilega hvetja alla foreldra barna á aldrinum 3-16 ára sem lesa þessa færslu að gefa börnunum sínum leikjatölvu og sjónvarp, í það minnsta á meðan að ég er að læra fyrir stúdentspróf.

Einnig vil ég biðja ykkur kæru nágrannar ef þið eruð að lesa þetta að drullast til að banna börnunum ykkar að glamra á píanó klukkan átta á morgnana. Annað hvort er ég að reyna að sofa á þessum tíma eða að reyna að læra. Stanslaust píanóglamur á verkum sem ég er búinn að þjást við að hlusta á í nánast heilt ár hjálpar til við hvorugt. Og hættið líka að smíða. Eitt hamarshögg eða hljóð í vélsög á meðan að ég er að læra eðlisfræði um helgina og ég fer og rústa píanóinu ykkar með sleggju. Takk.

Jammmjammm, alltaf jafngaman í prófum...

Engin ummæli: