laugardagur, janúar 28

Ónýtur

/* Vandamálið við að hafa tvö eða fleiri blogg í gangi er að hætta er á að annað verði vanrækt. Svo hefur því miður verið með hið ágæta Heimsborgarablogg en von er á betri tíð þar. Í fullvissu um að enginn lesi það lengur hef ég því ákveðið að skella síðustu færslu sem ég ritaði þar inn hingað líka, enda nauðsynleg lesning fyrir alla þá sem hingað koma./*

Það er deginum ljósara að undirritaður Heimsborgari þolir ekki lengur menningarskort og almennan plebbaskap í Reykjavík. Liðin er sú tíð að undirritaður gat drukkið tunnur af rauðvíni undir styttum Parísar og kúta af Böðvari á bökkum Vltava. Í gær héldu Heimsborgararnir þrír ásamt skjaldsveini sínum, Guillaume de la Skúnk, á hið svonefnda "djamm" sem er víst aðalskemmtun óupplýsts almúga íslensku þjóðarinnar.

Vægast sagt hafði þessi reynsla djúpstæðari áhrif á mig en ég gat gert mér í hugarlund. Morguninn eftir er ég ætlaði mér að rísa úr rekkju undir ljúfum tónum hins 250 ára afmælisbarns leið mér eins og líkami minn hefði lent í sömu hakkavél og gæsalifrin sem ég gæddi mér á í París í formi patês. Gjörónýtur lá ég í móki undir dúnsæng minni og reyndi að hreinsa huga minn af minningum næturinnar. Er ég nú allur að koma til eftir því sem ég skrifa þetta, enda fátt meira gefandi en að vara viðkvæmar sálir við því að lenda í sömu hremmingum og ég.

Nú hljómar franski þjóðsöngurinn úr næsta herbergi, berst til eyrna minna og veitir mér kraft. Þökk sé honum hefur mér takist að endurreisa stolt mitt og hugi minn reikar nú á ný til Notre Dame og Louvre. Ég er frjáls á nýjan leik.

fimmtudagur, janúar 26

Sjónvarpsblogg

Nú áðan sat ég í makindum mínum og horfði á fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Að honum loknum leit fjarstýringin til mín tælandi brosi og lokkaði mig til að taka sig upp. Áður en varði voru stöðvaheitin farin að fljúga fyrir framan sjónu mína líkt og gæsir í oddaflugi. Þegar að þau höfðu flogið fram hjá sjónvarpsstöðinni Sirkus leið ekki á löngu þangað til að vitund mín áttaði sig á því hvaða þáttur var í gangi en það sá ég um leið og stöðvaflakkið fór fram.

Partý 101.

Fylltur forvitni og dirfsku ákvað ég að nú skyldi verða af því. Loksins skyldi ég horfa á einhvern þeirra nýju þátta sem að tröllríða íslenskri dagskrárgerð þessa dagana. Loksins mundi ég verða viðræðuhæfur um hinar nýju sjónvarpsstjörnur. Loksins var kominn tími til að ég horfði á Partý 101.

Fimmtán sekúndum síðar stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu. Aldrei nokkru sinni hef ég eytt jafnmiklum tíma í jafnlítið.

þriðjudagur, janúar 24

Leikarablogg

Ólafía Hrönn Jónsdóttir er með allra leiðinlegustu og ofmetnustu leikkonum landsins. Hvert hlutverk sem henni tekst að krækja sér í er einu hlutverki of mikið.

Út yfir allan þjófabálk tók frammistaða hennar í nýafstöðnum áramótasora en að Eddu Björgvinsdóttur sem er leiðinlegasta leikkona landsins kenni ég henni að miklu leyti um. Nú áðan kveikti ég á sjónvarpinu og þar birtist smettið á henni um leið og mynd kom á skjáinn. Nýjasta nýtt hjá henni er víst að leika í íslensku glæpaþáttaröðinni (eða hvað sem þetta er) en með snarræði tókst mér að stökkva á fjarstýringuna og skipta um stöð. Tókst mér þannig að bjarga geði mínu það sem eftir lifir kvölds en til að losa mig við uppsafnaðan pirring í garð hennar ákvað ég að rita þessa færslu hér inn.

Ég bið loks Kára afsökunar á því að hafa ekki skrifað meira í færslu mína um Lenny Kravitz. Í von um fyrirgefningu hef ég því ákveðið að birta skrif hans sem sögðu allt sem ég hefði viljað segja:

,,Lenny er með tilgerðarlega rödd og hárið á honum verður ljótara með hverjum deginum sem líður. Eftir lag með honum er heimskur almúginn uppveðraður af hversu góður gítarleikari hann er en það er bara alls ekki rétt. Þetta eru heyrnhverfingar. Þetta er rugl. Þetta er kúkur. Og kona á trommur? Hún getur ekki hamrað húðir, ætli hún sé ekki of upptekin við að hamra Lenny.”

Kannski svona fyrir utan trymbilkonuna. Hann má eiga það skuldlaust...

miðvikudagur, janúar 18

Tónlistarblogg

Mikið hilvíti er hann Lenny Kravitz leiðinlegur.

Bömmer

Glæpir borga sig greinilega ekki...

Rúm

Akkilesarhæll þess sem á mikið eftir að lesa er hlýtt og þægilegt rúm. Ég fékk skot í þann hæl nú áðan...

mánudagur, janúar 16

Sögur úr eldhúsinu

Annan hvorn mánudag er ég búinn í hádeginu í skólanum. Slíkt ber einmitt upp á þann dag sem þetta er ritað. Nú áðan ákvað ég að nýta mér það að vera búinn snemma og elda mér pasta í hádegismat í stað þess að misbjóða líkama mínum með pylsu á Select.

Þegar ég ætlaði að taka spagettíið úr pakkanum varð mér aðeins á í messunni og missti pakkann á gólfið. Hin fleygu orð „flaskan valt og úr henni allt” áttu svo sannarlega við á þeirri stundu.Nú veit ég hins vegar hvernig hinn stórskemmtilegi leikur Mikado var fundinn upp...

laugardagur, janúar 14

Snjór

Um leið og snjó festir á götum Reykjavíkur fara íbúar hennar í keppni um hver getur hagað sér sem mesta fíflið í umferðinni.

sunnudagur, janúar 1

Þakkir

Ég ætla að færa handritshöfundum og leikstjóra Áramótaskaupsins 2005 þakkir fyrir eitt það lélegasta skaup sem ég hef nokkru sinni pínt augu mín með. Nú veit ég hvernig á ekki að búa til áramótaskaup...

Ljósi punkturinn við þennan hrylling er þó sá að nú hefur fólk eitthvað til að tala um og skammast yfir, góð fórn hjá þessu hæfileikalausa liði...


Og gleðilegt ár, svo lítið hef ég nú ekki við tíma minn að gera að ég tími honum í ritun annáls, látum það nægja að segja að 2005 var helvíti gott ár...