þriðjudagur, febrúar 8

Pólitískt blogg



Sat áðan fund með menntamálaráðherra ásamt kennurum Menntaskólans, fulltrúum nemendafélaganna og öðrum góðum gestum. Nú má hverjum og einum það fullljóst vera að önnur eins firra og að stytta framhaldsskólann hefur ekki borist til eyrna mér síðan að ég frétti að Bakkabræður ætluðu sér að bera inn ljós í húfum sínum. Þorgerður Katrín minnti mig á lélegan Sólbjartsræðumann sem samþykkti fyrir mistök að mæla með fyrirfram töpuðum málsstað, þrástagaðist á sömu punktunum sem að fundarmenn gleyptu að sjálfssögðu ekki við og vitnaði ótt og títt í álit ónafngreindra sérfræðinga, en jafnvel hinir slökustu Sólbjartsræðumenn hafa þó vit á því að skálda upp e-r nöfn á þá. Þorgerður átti ekki roð í fundarmenn þegar kom að spurningunum sem brunnu á vörum allra og uppskar fyrir vikið verðskuldað fliss (sem að hún reyndi að snúa gegn kennurunum, en þau orð sem engan þunga bera ná ekki í gegnum þykkan varnarskjöld fundarmanna). Það hljóta að teljast nýmæli ef að trúðar ætla sér að stjórna menntakerfi heillar þjóðar.

Þau rök sem Þorgerður kom með voru í flestan stað mjög hæpin og ljóst er að aðaltilgangur styttingarinnar hlýtur að vera að lækka útgjöld ríkissin til menntamála, nokkuð sem ríkisstjórn Íslands ætti að skammast sín fyrir nú í upphafi 21. aldarinnar. Allt annað virðist vera framsett til að slá ryki í augu gagnrýnenda, en þegar rykstorminn hefur lægt hljóta flestir að sjá í gegnum blekkinguna. Ef augu mín voru opin fyrir fundinn þá eru þau opnari en landamæri Bandaríkjanna á 19. öld núna, og fullvíst að enginn þeirra sem láta sig málið varða ætla að sitja auðum höndum á næstunni. Eflaust gæti ég skrifað mun lengri færslu um þetta mál, en krefjandi stærðfræðipróf á morgun kallar (en að sögn ráðherra er stærðfræðikennslan á menntaskólastigi víst fyrst og fremst upprifjun á grunnskólastærðfræðinnni) og ég ætla að njóta þess að geta stundað krefjandi nám á framhaldsskólastigi á meðan að það stendur enn til boða. "Tími aðgerðanna er runninn upp" sagði Lenín,"Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan" sagði Roosevelt og "I'm so proud of it i put my name on it" sagði George Forman. Þessi síðasta tilvitnun átti alls ekki heima þarna. Aðgerðir ráðherra eiga að sama skapi alls ekki heima í upplýstu þjóðfélagi á 21. öldinni. Ég vil því að endingu klykkja út með hinum frægu orðum Caesars sem eiga jafnvel við nú í dag og þau áttu við í Rómaveldi til forna, auk þess sem ég bið lesendur vel að lifa og taka þátt í þeim aðgerðum sem framundan eru. En eins og Caesar sagði:
Þorgerður Katrín - Þú söks!

Engin ummæli: