fimmtudagur, október 6

Lát...

...undan hópþrýstingi hefur átt sér stað og ég hef loksins látið undan þessu klukkunarbrjálæði sem gripið hefur íslensku þjóðina síðustu vikur. Ástandið var orðið þannig að ég gat ekki gengið óáreittur um ganga skólans né reynt að læra án þess að vera sífellt truflaður af æstum skríl sem þrýsti á mig að láta undan. Þar sem fyrirséð var að þetta mundi hafa skaðvænleg áhrif á einkunnir mínar á þessu misseri hef ég því ákveðið að láta undan og birta hér með fimm klukkunaratriði:

1. Í raun og veru hef ég ekki hugmynd um hvað mig langar að halda áfram að læra og hef ég þjáðst af óákveðni í þeim málum svo mánuðum skiptir. Mig langar að leggja stund á flestar tegundir verkfræði auk eðlisfræðinnar (og einnig stærðfræðinnar) sem ég nota tíma minn í núna og á sérhverjum degi fæ ég nýjar grillur í kollinn um hvað mig langar mest til að gera.

2. Forgangsröðum á verkefnum hjá mér er sjálfum mér óskiljanleg og hef ég gefist upp fyrir að reyna að ná e-m botni í hana. Þannig tók mig t.d. tvö og hálft ár til að ljúka við að mála herbergið mitt til þess eins að ég sé fram á að jafnlangur tími líði þangað til að ég eigi eftir að taka í því aftur (reyndar eru þetta nokkrar ýkjur, en ef ég held áfram að eyða tíma mínum í svona vitleysu held ég að þetta verði ágæt nálgun hjá mér...).

3. Ég man þann dag líkt og hann hefði gerst í gær sem ég keypti mér Sgt. Peppers Lonely Hearts Club plötuna (geisladiskinn reyndar, en það er ekki jafnrómantískst). Allt niður í smæstu smáatriði er tryggilega húðflúrað í huga minn, jafnvel fáránlegustu hlutir eins og það hvað ég borðaði í hádegismat.

4. Það eina sem ég eyði meiri tíma í á daginn en að læra er að hlusta á tónlist og á þessari stundu dettur mér í fátt í hug sem ég hef jafnmikið eða meira yndi af. Það að uppgötva og hlusta á nýja listamenn (og gamla að sjálfsögðu líka) er eitt af því sem gefur lífinu gildi sem. Í raun ætti það að vera öllum nokkur ráðgáta þar sem tónlist er í raun og veru ekkert annað en óhlutbundin sköpun annarra sem á sér í reynd enga fyrirmynd í neinu og það að hún geti valdið með fólki slíkar tilfinningar er eitthvað sem gaman er að velta sér upp úr. En það er önnur saga.

5. Oftast þegar ég finn fyrir þreytu í skólanum velti ég því mikið fyrir mér hvort borgi sig nú frekar að leggja sig þegar ég kem heim og læra eftir góða kríu eða drífa sig að læra og fara svo snemma að sofa. Í reynd veit ég ekki hvers vegna ég velti mér upp úr svona því ég hef fyrir löngu lært að lifa með því að ég á hvorugt eftir að gera, þess í stað á ég eftir að fara heim í tölvuna, láta frá mér einhverja svona vitleysu, læra svo langt fram á nótt og mæta þreyttur aftur í skólann daginn eftir.


Vona að þetta nægi til þess að ég fái frið í einkalifinu aftur, allavega sé ég á þessum skrifum að ég ætti að fara að taka til...

Til að taka svo þátt í þessari klukkgeðveiki munu eftirtaldir aðilar nú fá að þjást:
  • Grettir
  • Guðmundur Friðrik
  • Henrik Geir
  • Hildur
  • Skytturnar fimm
  • Engin ummæli: