sunnudagur, mars 14

Morfís, húllumhæ sem fylgdi á eftir og tónleikar



Í gær kepptu MR og MH í undanúrslitum rétt eins og ég reikna með að allir sem lesa þetta blogg viti. Ætla ég því ekki að vera fjölorður um þá keppni, en langar aðeins að minnast á nokkur atriði. Fyrst vil ég hrósa Steindóri fyrir að ná sér aftur á strik í seinni umferð, en hann bar það með sér í fyrri umferð að vera ekki upp á sitt besta. Síðan langar mig að MR-liðinu í heild sinni, þeir stóðu sig frábærlega þó að sigur hafi ekki unnist. Síðan langar mig til að lýsa frati á einn dómara, sem hvanndaleraði þetta. Ég skal alveg viðurkenna að þetta var tæpt, og átti ég alveg eins von á því í hléi að MH færi með sigurinn eins og MR enda stóðu bæði lið sig frábærlega, og hafði ég spáð 10-20 stiga sigri, sem mundi detta öðru hvoru megin. Að dæma öðru liðinu hins vegar rúmlega 80 stiga sigur hlýtur hver einasti maður sem eitthvert vit hefur á ræðukeppnum að sjá að það er stórundarlegt. Einnig kom það mér talsvert á óvart að meðmælandi MH, Halldór Halldórsson (Dóri DNA), var dæmdur hærra en Jón Bjarni, en það er önnur saga.

Eftir keppnina var svo haldið á skemmtistaðinn Opus. Var þar frekar margt um manninn, og vel þolanlegt að vera þar inni á meðan að Birgir Örn, forseti Listafélagsins, sá um skífuþeytingar. Hins vegar fór heldur betur að halla undan fæti eftir að hann yfirgaf svæðið, og tók þá hinn argasti sori við og hef ég aldrei skilið van Gogh betur en einmitt þessa nótt í þrá sinni að skera af sér eyrað. Kæri skífuþeytir, ef þú ert að lesa þetta: ÞAÐ ER EKKI GAMAN AÐ HEYRA SCOOTER FIMM SINNUM Á SAMA KVÖLDI. ÞAÐ ER RÉTTARA SAGT ALDREI GAMAN AÐ HEYRA LÖG MEÐ SCOOTER SPILUÐ!

Í dag fór ég svo á Bítlatónleika Sinfóníunnar. Bítlasöngleik væri réttara að segja, því að þetta var frekar sýning heldur en tónleikar. Sem sýning var þetta ágætis skemmtun, þó svo að tónlistin sem spiluð var þarfnast að sjálfsögðu ekki neins aukaskrauts. Hins vegar er ég enn að furða mig á því, og geri það eflaust lengi enn, afhverju tækifærið á að spila A Day in the Life var ekki nýtt, þar sem að allar aðstæður voru fyrir hendi. Mun annað eins tækifæri líklegast ekki líta dagsins ljós í nokkurn tíma, þar sem það er ekki á hverjum degi sem að Sinfóníuhljómsveitin tekur sig til og spilar tónlist eftir fjórmenningana frá Liverpool.

Ræðukeppni á þriðjudaginn, Fornmáladeild á móti Eðlisfræðideild, og mun umræðuefnið verða Fornmáladeild, og erum við í Eðlisfræðideild að sjálfsögðu með. Verið þar eða verið kassalaga.

Jæja, best að ljúka þessari færslu og fara að sofa. Í tilefni tónleikanna verður:

Hljómsveit færslunnar: The Beatles
Plata færslunnar: Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band
Lag færslunnar: A Day in the Life

Engin ummæli: