Úrslitakvöld
Músíktilraunir: Eftir hina vikulegu spurningakeppni hugðumst við Pajdak skella okkur á úrslitakvöld Músíktilrauna. Fór það þó ekki betri en svo að uppselt var þegar við mættum á svæðið, og urðum við að láta okkur það lynda. Héldum við þess í stað á Devito's og til Agnars auga, þar sem spilað var Trivial Pursuit fram á rauða nótt (þ.e. til tíu um kvöldið). Eftir spilið, sem lauk aldrei, héldum við á kosningavökuna, en það kemur í annarri efnisgrein.
Morfís: Fjölbrautarskólinn við Kringluna vann, nokkuð óverðskuldað að mati þeirra sem ég hef talað við. Munaði einungis einu stigi af 3080, sem er náttúrulega alveg fáránlega lítið.
Kosningar í MR:Við náðum inn á kosningavökuna þegar nýbúið var að kynna síðustu úrslitin, þ.e. hvort Elín Lóa eða Jón Bjarni yrði næsti inspector. Munaði einungis þremur atkvæðum, og lauk kosningunum með sigri Jóns Bjarna, og hafa úrslitin ekki verið jafntæp síðan í Saltvík '72. Sjálfur komst ég svo í embætti collegae auk Vilhjálms Alvars, og gæti ég ómögulega verið sáttari við úrslitin í því embætti. Gunnar Hólmsteinn hlaut svo fleiri atkvæði en sem nam auðum og ógildum (hvernig er annars hægt að greiða ógild atkvæði núna, þegar tölvan bannar manni það?), og Einar Búi er næsta scriba. Athygli vekur að af fimm Skólafélagsstjórnarmeðlimum voru fjórir í árshátíðar/skreytinganefnd Framtíðarinnar fyrir síðustu árshátíð. Af öðrum embættum Skólafélagsins má nefna að framsóknarmaður scholae, Ólafur Sveinn, er skólaráðsfulltrúi og Friðrik, Þórður og Haukur skipa lagatúlkunarnefnd næsta árs (ég nenni ekki að gera linka). Friðrik Árni, formaður skemmtinefndar, og verndarmaður minn í ár, heldur svo starfi sínu áfram í sömu nefnd, ásamt Berglindi og Hrafnhildi.
Steindór Grétar Jónsson er svo næsti forseti, og treysti ég þessum meðbróður mínum í skemmtinefnd til að gera góða hluti. Grímur er gjaldkeri, Gunnar ritari og Þorbjörg og Fannar meðstjórnendur, og tók Fannar hið árlega þriðjabekkjarsæti í ár. Höskuldur, heiðursforseti Diffurfélagsins Fasta er næsti forseti Vísindafélagsins, og nú verður diffrað og De Rerum Natura gefið út. Á heildina litið má segja að úrslit kosninganna hafi verið góð, stórgóð jafnvel, þó að ýmsir góðir drengir og stúlkur hafi ekki náð embætti. Tomasz H. Pajdak og Henrik Geir Garcia hljóta svo miklar þakkir mínar fyrir auglýsingastúss, auk Haralds Hreinssonar fyrir kókhellerí.
Eftir kosningavökuna tók við óttaleg vitleysa, skipulagðar skemmtanir voru lagðar niður, en eftir nokkra dvöl á Hverfisgötunni var haldið á Opus. Var sú skemmtun mun skemmtilegri en sú sem síðast fór fram, þó að tónlistin hafi farið hríðversnandi eftir því sem á leið kvöldið. Var þar margt um manninn, og liggur nærri að ég hafi talað við flesta þá sem kusu mig. Um fjögurleytið var þó nóg komið, en þá hafði MR-ingum fækkað umtalsvert á svæðinu. Var því haldið heim á leið, og lauk þar með einu viðburðarríkasta kvöldi í langan tíma, þar sem úrsltin komu trekk í trekk, og líkur hérmeð einnig þessari færslu.