miðvikudagur, mars 31

Veðrið



Vá, einhverjir veðurguðir eru á fylleríi núna. Þegar þetta er skrifað, kl. 2:43 þann 31. mars 2003, er snjókoma í Vesturbæ Reykjavíkur og hefur verið í nokkurn tíma. Áðan brá ég mér út í bíl, og lá þar frekar skrítið snjólag yfir öllu, samansett af þykkri slyddu, sem hvorki rennur niður í holræsin né þjappast þegar maður stígur á hana, heldur er bara þykkt vatnslag. Ef svo frystir í nótt er voðinn vís á morgun, og ljóst að slysamóttökur eiga eftir að verða vinsælli en saunur í Finnlandi (sökum þreytu dettur mér ekkert fyndnara í hug, og bið ég lesendur um að afsaka það).

Í fréttum er það annars helst að Ísmeistararnir eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í kurling, og var víða kátt á bæ þegar fréttist af sigri þeirra. Athygli vekur að nýkrýndur Íslandsmeistari í listdansi á skautum er svo liðsmaður Ísmeistaranna, og ekki heiglum hent að verða Íslandsmeistari í báðum þessum fjölmennu greinum. Færi ég þessu afreksfólki hamingjuóskir.

I'VE GOT BLISTERS ON MY FINGER! Hver mælti (öskraði svo), í hvaða hljómsveit var viðkomandi, í hvaða lagi var þetta, á hvaða plötu var þetta lag, og hver er ástæðan fyrir því að umræddur tónlistarmaður var með blöðrur á fingrunum? Svarist í athugasemdakerfi.

Hljómsveit færslunnar: Dire Straits
Diskur færslunnar: Making Movies
Lag færslunnar: Tunnel of Love

mánudagur, mars 29

Ójá



Kominn með miða á Vini Dóra. 8. apríl er feitt tekinn frá!

sunnudagur, mars 28

Ööööö



Afhverju liggur snjór yfir öllu úti?

Nýr titill



Nú er ég búinn að breyta um titil á blogginu, máske kominn tími til þar sem að tegurreikningur hefur tekið við hlutverki líkindareikningsins sem nýjasta nýtt. Einnig hef ég pælt í að laga template-ið aðeins til, bæta inn einhverju flúri, en tíminn einn verður að leiða í ljós hvort úr því verður. Einnig hef ég komist að því eftir nokkrar rannsóknir að "tenglaskiptajöfnuðurinn" er mér nokkuð óhagstæður, spurning hvort að maður fari að heimta tengla af fólki. Sjáum til, sjáum til.

Chopin er magnaður, svo lag færslunnar verður vals í As-dúr, op. 34 nr. 1.

laugardagur, mars 27

Úrslitakvöld



Músíktilraunir: Eftir hina vikulegu spurningakeppni hugðumst við Pajdak skella okkur á úrslitakvöld Músíktilrauna. Fór það þó ekki betri en svo að uppselt var þegar við mættum á svæðið, og urðum við að láta okkur það lynda. Héldum við þess í stað á Devito's og til Agnars auga, þar sem spilað var Trivial Pursuit fram á rauða nótt (þ.e. til tíu um kvöldið). Eftir spilið, sem lauk aldrei, héldum við á kosningavökuna, en það kemur í annarri efnisgrein.

Morfís: Fjölbrautarskólinn við Kringluna vann, nokkuð óverðskuldað að mati þeirra sem ég hef talað við. Munaði einungis einu stigi af 3080, sem er náttúrulega alveg fáránlega lítið.

Kosningar í MR:Við náðum inn á kosningavökuna þegar nýbúið var að kynna síðustu úrslitin, þ.e. hvort Elín Lóa eða Jón Bjarni yrði næsti inspector. Munaði einungis þremur atkvæðum, og lauk kosningunum með sigri Jóns Bjarna, og hafa úrslitin ekki verið jafntæp síðan í Saltvík '72. Sjálfur komst ég svo í embætti collegae auk Vilhjálms Alvars, og gæti ég ómögulega verið sáttari við úrslitin í því embætti. Gunnar Hólmsteinn hlaut svo fleiri atkvæði en sem nam auðum og ógildum (hvernig er annars hægt að greiða ógild atkvæði núna, þegar tölvan bannar manni það?), og Einar Búi er næsta scriba. Athygli vekur að af fimm Skólafélagsstjórnarmeðlimum voru fjórir í árshátíðar/skreytinganefnd Framtíðarinnar fyrir síðustu árshátíð. Af öðrum embættum Skólafélagsins má nefna að framsóknarmaður scholae, Ólafur Sveinn, er skólaráðsfulltrúi og Friðrik, Þórður og Haukur skipa lagatúlkunarnefnd næsta árs (ég nenni ekki að gera linka). Friðrik Árni, formaður skemmtinefndar, og verndarmaður minn í ár, heldur svo starfi sínu áfram í sömu nefnd, ásamt Berglindi og Hrafnhildi.

Steindór Grétar Jónsson er svo næsti forseti, og treysti ég þessum meðbróður mínum í skemmtinefnd til að gera góða hluti. Grímur er gjaldkeri, Gunnar ritari og Þorbjörg og Fannar meðstjórnendur, og tók Fannar hið árlega þriðjabekkjarsæti í ár. Höskuldur, heiðursforseti Diffurfélagsins Fasta er næsti forseti Vísindafélagsins, og nú verður diffrað og De Rerum Natura gefið út. Á heildina litið má segja að úrslit kosninganna hafi verið góð, stórgóð jafnvel, þó að ýmsir góðir drengir og stúlkur hafi ekki náð embætti. Tomasz H. Pajdak og Henrik Geir Garcia hljóta svo miklar þakkir mínar fyrir auglýsingastúss, auk Haralds Hreinssonar fyrir kókhellerí.

Eftir kosningavökuna tók við óttaleg vitleysa, skipulagðar skemmtanir voru lagðar niður, en eftir nokkra dvöl á Hverfisgötunni var haldið á Opus. Var sú skemmtun mun skemmtilegri en sú sem síðast fór fram, þó að tónlistin hafi farið hríðversnandi eftir því sem á leið kvöldið. Var þar margt um manninn, og liggur nærri að ég hafi talað við flesta þá sem kusu mig. Um fjögurleytið var þó nóg komið, en þá hafði MR-ingum fækkað umtalsvert á svæðinu. Var því haldið heim á leið, og lauk þar með einu viðburðarríkasta kvöldi í langan tíma, þar sem úrsltin komu trekk í trekk, og líkur hérmeð einnig þessari færslu.

þriðjudagur, mars 23

Ærlegt yfirsofelsi



Í gær lenti undirritaður í óttalegri vitleysu. Um síðdegisbil var haldið ásamt Pajdak og Garcia niður í bæ þar sem að ýmsar myndir voru teknar í auglýsingaskyni, sumar súrari en aðrar. Reyndar voru þær nær allar súrar en ég held að hápunktinum hafi verið náð þegar ég brá mér hinum megin við afgreiðsluborðið á Bæjarins bestu og afgreiddi pylsu. Myndir eru væntanlegar inn á þessa síðu. Um kvöldið fór svo álag undanfarinna vikna að segja til sín, og síðast en ekki síst örstuttur svefn aðfaranótt mánudags. Olli þetta mikilli þreytu sem varð þess að valdandi að um miðnæturbil lagðist ég nær ómeðvitað upp í rúm og svaf þar til morguns. Og ekki nóg með það, heldur svaf ég líka yfir mig sem hefur vart gerst að slíku marki í háa herrans tíð. En mér tókst þó að ná hádegishléi niðri í kjallara Casae Nova og gaf þar fólk ýmsar gerðir af kartöfluflögum, ásamt því að afrakstur gærdagsins í auglýsingagerð fékk að líta dagsins ljós. En nú er komið nóg af þessu, líffræðipróf á morgun og ég nenni ekki að lenda í svefnvitleysu á nýjan leik.

Hljómsveit færslunnar: Led Zeppelin
Diskur færslunnar: BBC Sessions
Lag færslunnar: Thank You

mánudagur, mars 22

Ójá



Kosningastemmó

Nei eða já?



Af eða á? Beint eða á ská? Til eða frá? Liggaliggalá? Hlust'eða gá? Gef'eða fá?

Þetta er einn af mínum allra súrustu póstum. Gaman að því.

sunnudagur, mars 21

Ný færsla



Það var kominn tími á nýja færslu, hérna er hún. Ég ætla að skrifa e-ð af viti á morgun.

fimmtudagur, mars 18

Úrslitin og ýmislegt annað



Jæja, ræðukeppnin fór fram á þriðjudaginn og lauk hún með sigri Fornmáladeildar, eftir að einn dómarinn Hvanndaleraði frekar feitt, og mér tókst að hala inn ófá refsistig. Gaman að þessu samt sem áður.

Our Man in Havana er hin ágætasta lesning. Með skemmtilegri kjörbókum sem ég hef lesið í skólanum.

Um daginn í verklegri efnafræði var verið að gera tilraun með klóróform. Meðan að á framkvæmd stóð var óhjákvæmilegt að anda af sér e-u af gufum þess, og olli það því að allir bekkurinn sofnaði í tvo tíma. Nú var ég að ýkja. Hins vegar rifjaðist það upp fyrir mér að nákvæmlega eins lykt er af klóróformi og blár Ópal bragðast, enda inniheldur blár Ópal einmitt klóróform. Hvaða brjálaða vísindamanni datt eiginlega í hug að setja klóróform í sælgæti??? (Þetta er í fyrsta og líklegast eina skiptið sem þrjú spurningarmerki eru notuð). Var samtalið e.t.v. e-ð á þessa leið:

Brjálaður vísindamaður nr. 1: Heyrðu, hvaða bragð eigum við eiginlega að hafa af þessu nýja ópali?
Brjálaður vísindamaður nr. 2: Hmmm, mér dettur ekkert í hug. Kannski súkkulaði? Eða jarðaberja? Jafnvel myntu?
Brjálaður vísindamaður nr. 1: Niiiiiiii, þetta er allt e-ð svo klisjukennt. Ég vil fá eitthvað flippað.
Brjálaður vísindamaður nr. 2: Já, það er rétt hjá þér. Hvað ættum við að setja í þetta?
Brjálaður vísindamaður nr. 1: JÁÁÁÁÁÁÁ, ÉG VEIT! Setjum klóróform í þetta!
Brjálaður vísindamaður nr. 2: Heyrðu djöfull ert þú flippaður gaur. Skellum klóróformi í þetta helvíti.
Brjálaður vísindamaður nr. 1: Já maður, það er feitt flipp. Djöfull erum við brjálaðir!

Þess má svo til gamans geta að blár Ópal smakkast einmitt best. Hins vegar er klóróform ekki gott á bragðið, það geta ófáir nemendur skólans vitnað um eftir að hafa ætlað að smakka "fljótandi Ópal".

Svo er það bara framboð til collegae. Næsta vika verður villt.


Tónlistarmaður færslunnar: Paul McCartney
Plata færslunnar: Flaming Pie
Lag færslunnar: Calico Skies

þriðjudagur, mars 16

Sveifla



Einhver besti efnafræðifyrirlestur sem sögur eiga eftir að fara af verður fluttur á morgun. Aumingja þið sem eruð ekki í V.X, þið er eruð að missa af miklu þegar Ásgeir Birkisson bomba og Vilhjálmur A Þórarinsson þrínitroglycerín fjalla um sprengiefni.

Leggjast þrjár ástæður á eitt og neyða mig til að vaka nú seint um nóttu.
1. Efnafræðifyrirlestur
2. Ræðukeppni
3. Heimalærdómur í stærðfræði.

Kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir, en eins og allir vita stendur til að breyta átakinu Vímuefnalaust Ísland í Svefnlaust Ísland, og síðustu vikur hafa verið góður undirbúningur.

sunnudagur, mars 14

Morfís, húllumhæ sem fylgdi á eftir og tónleikar



Í gær kepptu MR og MH í undanúrslitum rétt eins og ég reikna með að allir sem lesa þetta blogg viti. Ætla ég því ekki að vera fjölorður um þá keppni, en langar aðeins að minnast á nokkur atriði. Fyrst vil ég hrósa Steindóri fyrir að ná sér aftur á strik í seinni umferð, en hann bar það með sér í fyrri umferð að vera ekki upp á sitt besta. Síðan langar mig að MR-liðinu í heild sinni, þeir stóðu sig frábærlega þó að sigur hafi ekki unnist. Síðan langar mig til að lýsa frati á einn dómara, sem hvanndaleraði þetta. Ég skal alveg viðurkenna að þetta var tæpt, og átti ég alveg eins von á því í hléi að MH færi með sigurinn eins og MR enda stóðu bæði lið sig frábærlega, og hafði ég spáð 10-20 stiga sigri, sem mundi detta öðru hvoru megin. Að dæma öðru liðinu hins vegar rúmlega 80 stiga sigur hlýtur hver einasti maður sem eitthvert vit hefur á ræðukeppnum að sjá að það er stórundarlegt. Einnig kom það mér talsvert á óvart að meðmælandi MH, Halldór Halldórsson (Dóri DNA), var dæmdur hærra en Jón Bjarni, en það er önnur saga.

Eftir keppnina var svo haldið á skemmtistaðinn Opus. Var þar frekar margt um manninn, og vel þolanlegt að vera þar inni á meðan að Birgir Örn, forseti Listafélagsins, sá um skífuþeytingar. Hins vegar fór heldur betur að halla undan fæti eftir að hann yfirgaf svæðið, og tók þá hinn argasti sori við og hef ég aldrei skilið van Gogh betur en einmitt þessa nótt í þrá sinni að skera af sér eyrað. Kæri skífuþeytir, ef þú ert að lesa þetta: ÞAÐ ER EKKI GAMAN AÐ HEYRA SCOOTER FIMM SINNUM Á SAMA KVÖLDI. ÞAÐ ER RÉTTARA SAGT ALDREI GAMAN AÐ HEYRA LÖG MEÐ SCOOTER SPILUÐ!

Í dag fór ég svo á Bítlatónleika Sinfóníunnar. Bítlasöngleik væri réttara að segja, því að þetta var frekar sýning heldur en tónleikar. Sem sýning var þetta ágætis skemmtun, þó svo að tónlistin sem spiluð var þarfnast að sjálfsögðu ekki neins aukaskrauts. Hins vegar er ég enn að furða mig á því, og geri það eflaust lengi enn, afhverju tækifærið á að spila A Day in the Life var ekki nýtt, þar sem að allar aðstæður voru fyrir hendi. Mun annað eins tækifæri líklegast ekki líta dagsins ljós í nokkurn tíma, þar sem það er ekki á hverjum degi sem að Sinfóníuhljómsveitin tekur sig til og spilar tónlist eftir fjórmenningana frá Liverpool.

Ræðukeppni á þriðjudaginn, Fornmáladeild á móti Eðlisfræðideild, og mun umræðuefnið verða Fornmáladeild, og erum við í Eðlisfræðideild að sjálfsögðu með. Verið þar eða verið kassalaga.

Jæja, best að ljúka þessari færslu og fara að sofa. Í tilefni tónleikanna verður:

Hljómsveit færslunnar: The Beatles
Plata færslunnar: Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band
Lag færslunnar: A Day in the Life

föstudagur, mars 12

Efnaformúla tónleika og veðurbrigða



Efnaformúla
Upp á síðkastið hef ég stundað skrif á fyrirlestri í efnafræði um hið áleitna efni sprengiefni. Er ekki laust við að fari um þig lesandi góður sökum spennings þegar þú heyrir þetta, og eflaust viltu fá að heyra þennan fyrirlestur áður en þú lýkur jarðneskri tilveru þinni. Mun ég því reyna að koma með valda punkta úr þessum fyrirlestri á bloggið af og til, og munu ófáir menn safna þessum molum eins og !C-4 er svokallað plastsprengjuefni! verðmætustu gullmolum. Sko, þarna kom fyrsti búturinn, eflaust viltu prenta hann út, ramma inn og hengja upp á vegg. Aldrei þessu vant stóð til að klára þennan fyrirlestur á skikkanlegum tíma, og aldrei þessu vant tókst það ekki. Herslumuninn vantar upp á fyrirlestur sem fær fólk til að skipta um skoðun sína á tilgangi lífsins, en án efa mun takast að bæta þessum margumtalaða herslumun við.

Tónleika
Listavikan hélt áfram í dag með hinum árlegu Megasartónleikum í hátíðarsal Menntaskólans. Var það magnað oplevelse að sjá meistarann Megas þenja raddböndin á salnum, og tek ég undir orð Guðmundar og lýsi frati á þá sem mættu ekki. Er öruggt að farið verði á tónleikana á sama tíma að ári.

og
Tómamengi

Veðurbrigða
Svo virðist sem veðurguðirnir hafi tekið sig á eftir að þeir lásu leikrit mitt til að vernda það litla sem eftir var af orðspori þeirra, því í dag var hið ágætasta veður. Gaman að því.

fimmtudagur, mars 11

Veðrið



Veðrið undanfarna daga hefur verið vægast sagt ömurlegt. Rigning og rok er ekki beint skemmtilegasta veðrið sem veðurguðirnar geta boðið okkur, og dettur mér helst í hug að þeir hafi lent á ærlegu fylleríi og nenni þessu ekki lengur. Komst ég yfir upptöku af samtali tveggja veðurguða, sem ég ætla að skrifa upp.

Veðurguðirnir



Veðurguðinn Kári: Nei blessaður Gaddi, djöfulsins fyllerí sem við erum á!
Veðurguðinn Gaddi: Já blessaður Kári, maður er alveg á rassgatinu hérna!
Kári: Heyrðu, við eigum eftir að ákveða veðrið í Reykjavík í næstu viku.
Gaddi: Já djöfull, alveg búinn að steingleyma því. Maður er varla að nenna því, maður er svo fullur.
Kári: Nei, ekki ég heldur. Hvað segirðu bara um að gefa þeim rigningu og rok svo allir verða nær dauða en lífi vegna þess hve veðrið er leiðinlegt?
Gaddi: Já, best að gera það bara, ég nenni ekki að kokka upp eitthvað flóknara veður.
Kári: Allt í lagi, gerum það þá.

(Gaddi og Kári fara með veðurþula og skyndilega hrannast ský upp á himininn í Reykjavík)

Gaddi: Jæja, þá er þetta búið. Þurfum ekki að hafa frekari áhyggjur af þessu í bili.
Kári: Frábært, höldum áfram að drekka dreggjar himins.
Gaddi: Skál!
Kári: Skál!

Lýkur hér með fyrsta leikriti þessarar bloggsíðu.

Tónlistarmaður færslunnar: Bob Dylan
Plata færslunnar: Blonde on Blonde
Lag færslunnar: One of us must know (sooner or later)

miðvikudagur, mars 10

Tónleikarnir



Hátíðartónleikarnir áðan voru góðir og er víst að þeir sem mættu ekki misstu af miklu. Dagskránni lauk þó með sannkölluðu fiaskoi, þar sem að sá sem átti að flytja lokalagið var víst ekki viðstaddur. Þakka ég hérmeð öllum þeim er léku listir sínar fyrir sitt framlag. Eftir tónleikana hélt ég svo með Þursnum í einhverja tilgangslausustu kaffihúsaferð sögunnar, en hún fólst í kortérs pælingum niðri í kvos hvort að það ætti að fara á Café Paris eða Kaffibrennsluna, en þeim pælingum lauk svo með því að farið var á Súfistann þar sem ein nóta var spiluð á píanó staðarins og síðan farið út.

Djöfull, ég verð að fara að hætta þessari næturbloggun, þetta er ekkert rosalega sniðugt...

Tónlistarmaður færslunnar: Scott Joplin

þriðjudagur, mars 9

I said baby, baby, baby



You are out of time.


Rolling stones standa ætíð fyrir sínu

Hátíðartónleikar



í Dómkirkjunni á eftir. Ég þangað.

BANZAI



Ekki virtist tag-boardið vera alveg að virka, þannig að ég ákvað að hvíla það aðeins. Íslenskir stafir skipta víst einhverju máli...

Diskur dagsins: The Beatles - Please Please Me

mánudagur, mars 8

Magnað



Tag-board og læti, hvar endar þetta, maður spyr sig...

sunnudagur, mars 7

Sólbjartur



Djöfull

föstudagur, mars 5

Sólbjartur



Sólbjartur er á morgun, og lofa ég skemmtilegri keppni. Hins vegar tel ég fullvíst að það eigi ekki margir eftir að lesa þetta áður en keppnin verður háð svo að tilgangurinn með þessu er ekki alveg augljós.

Helstu fréttir dagsins eru hins vegar þær að áðan var ég að skoða teljarann minn og komst ég þá að því að einhver heppinn Dani hafði ratað inn á þessa síðu er hann leitaði að binomalfordelingen á Google leitarvélinni. Ákvað ég að leika sama leik, og komst þá að því að einu niðurstöðurnar sem upp koma eru þetta blogg. Magnað.

Svo skellti ég tengli á sprelligosana í 4.Z, enda vænlegir diffrarar sem sjá um það. Dagur Snær fékk einnig sinn hlekk fyrir vasklega framgöngu á málfundinum í dag.

King Crimson - 21st Century Schizoid Man

fimmtudagur, mars 4

Úrslit



Nú eru úrslit fyrstu getraunar þessa blogs komin í ljós, en það var Steindór Grétar Jónsson sem fór með sigur af hólmi, og hlýtur hann glæst verðlaun. Myndin er tekin af umslagi plötunnar Bat out of Hell.

Ég gleymdi að minnast á það í síðasta pósti að ég fór á ræðukeppni milli 5.M og 3.D um daginn. Sá ég þar þann einstæða atburð að Tomasz H. Pajdak svaraði þar sínum eigin liðsfélaga, Ásgeiri Pétri Þorvaldssyni og er þetta líklegast í fyrsta sinn sem þetta hefur gerst, allavega muna elstu menn ekki eftir öðrum hliðstæðum atburði. Lauk keppninni svo með sigri 5.M nokkuð verðskuldað. Af Sólbjarti er það einnig að frétta að lið 5.A fór víst með sigur í sinni keppni, en reiknivilla í stigagjöf kom fram sem olli því að 3.I var dæmdur 9 stiga sigur í stað 1 stigs taps. Einnig verður keppnin margfrestaða, 5.X vs. 3.H, háð á föstudaginn, og er umræðuefnið Guð. Stemmó og allir að mæta.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að próf í skólanum hafa misst allan þokka sinn, og er svo komið að nennan fyrir próflestur er í algjöru lágmarki. Á morgun verður þreytt próf í líkindareikningi, og vart mælanlegur lærdómur minn fyrir það próf til þessa. Svefntaktíkin virðist líka vera óframkvæmanleg núna, en í því markmiði að læra e-ð lýk ég hérmeð þessari færslu. Takk fyrir og góða nótt.

Black Sabbath - Children of the Grave

miðvikudagur, mars 3

Getraun



Nú hefur verið brotið blað í bloggsögu mannkynsins, en nú mun fyrsta gátan birtast á þessu bloggi. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er nú komin mynd upp í vinstra horn síðunnar. Fyrsti gesturinn sem veit hvaðan þessi mynd kemur og svarar því í hið glæsta athugasemdakerfi hlýtur glæsileg verðlaun.

Place your bets now! BANZAIIII!

Einnig skellti ég tenglum á Gettu Betur hópinn eins og hann leggur sig, en athygli vekur að Tómasz H. Pajdak er ekki á þessum lista. Vil ég með þessu athæfi koma honum til að hefja bloggun. Tómas: Ég veit að þú ert að lesa þetta, og ég veit að þú vilt ekki vera útundan.

þriðjudagur, mars 2

Svefn



Er fyrir aumingja!

mánudagur, mars 1

Djöfull...



Þetta er ekki sniðugt...

Vísindalegur niðurstöður helgarinnar



-Íþróttir eru asnalegar
-Það er ekki gaman að eiga eftir að skrifa ritgerð í frönsku kl. 02:21 aðfaranótt mánudags
-Bat out of Hell er magnaður diskur, og stendur fullkomlega undir þeirri dýrkun sem á hann er lagt
-Chopin er magnaður
-Nú veit ég líkurnar á því að Hannes Portner velji af handahófi rauðlakkaðan lykil að ísköldum vetrarmorgni í niðamyrkri, þökk sé heimadæmunum
-Ég ætti ekki að vera að blogga núna heldur galdra fram frönskuritgerð úr erminni
-Teljarinn minn er kominn yfir 100
-Ég ætla að bæta inn fleiri linkum
-Ég er búinn að gleyma hvað ég ætlaði að segja meira