Fór fram í gær. Sjúk stemmning. Hófst á því að franski sjómaðurinn Roisant náði í mig og Gretti. Stefnan var sett á Domino's. Inn á Domino's löbbuðu þrír menn, tveir í smóking og einn í flippuðum, röndótt buxuðum sjakett. Þrír menn fengu ekki afgreiðslu. Líklegast hefur afgreiðslufólkið talið að hér væru vitleysingar á ferð og ætluðu ekki að láta ná sér á sama bragði og afgreiðslufólkið á Grillinu í Englum alheimsins. Endaði þó seint og um síðir að við fengum mat okkar afhendan og brunuðum með hann til móts við bekkjarfélaga okkar.
Áður en farið var inn á Domino's kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér hvílík skemmtun það væri að fara þangað inn í þessum klæðnaði og ganga með staf í hönd. Þegar inn væri komið skyldi síðan labbað upp að afgreiðsluborðinu og beðið eftir starfsmanni. Þegar starfsmaðurinn væri kominn skyldi stafnum lyft upp og honum potað í starfsmanninn. Ekkert meira. Bara pota í almúgann. Slíka hrifningu vakti þessi hugmynd hjá mér að ég viðraði hana við einhverja sem ég talaði við á ballinu. Vakti þessi hugmynd líka hrifningu hjá þeim og víst er að þessi hugmynd verður ekki látin óhreyfð. Stefnt er að hópferð á Lækjartorg þar sem potað verður í fólk með staf.
Rétt er að taka það fram að pizzuhugmyndin var ekki mín. Ég stakk frekar upp á snittum en einn heimsborgari má sín lítils á móti átta plebbum. Lýðræðið er rotnandi hræ. Eftir að matar hafði verið neytt var haldin hópferð nemenda Eðlisfræðideildar I til að skila heimadæmum í heimahús. Mæltist þetta einstaklega vel fyrir hjá Birgi (ég geri fastlega ráð fyrir því að allir sem lesa þetta viti um hvern er rætt) og höfðu allir sem málið snerti mikið gaman af. Eftir það var haldið niður í Iðnó.
Sjálft fiðluballið var skemmtun frábær. Með fullt danskort og nóg af frjálsum dönsum voru sólar lakkskónna spændir upp og er mál flestra, þ.á.m. mitt, að sjaldan hafi ball verið jafnskemmtilegt. Eftir ballið var gengið fylktu liði kringum Tjörnina þessa stjörnubjörtu nótt og naut ég þar samfylgdar Maddýjar. Vegfarendur voru það heppnir að vera veifað af okkur (háaðalsveifi, jafnvel konunga- og drottningaveifi) og víst er að þegar stafapotshugmyndin verður framkvæmd verður þetta hluti af henni. Eftir ballið var svo haldið á Hressó, lent í hrókasamræðum við Línu og síðan haldið heim á leið.
Frábært kvöld sem náði nýjum hæðum þegar mér tókst að sofa yfir mig í morgun.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli