laugardagur, mars 19

Dyravörður deyr (e. Death of a security guard)

Endurgerð leikrits Arthurs Miller eftir Á. Birkisson.

Staður: Röðin á prikinu
Tími: Aðfaranótt laugardagsins 19. mars 2005

Ásgeir labbar niður Laugaveginn ásamt Einari Búa. Á röðinni á Prikið hittir hann hluta Grammanna og ákveður að hitta hinn hluta Heimsborgaranna þar inni. Einar Búi hafði fyrr um kvöldið þurft að bíta í það súra epli að skilríki hans virkuðu ekki á staðinn og ákveður að halda heim á leið. Framhaldið varð eftirfarandi:

E-r stelpur sem Ásgeir hefur ekki hugmynd um hverjar eru: "Hæ, varst þú ekki gaurinn í idolinu í gærkvöldi?"
Ásgeir: "Ha?"
E-r S:"Jújú, ég er viss um að ég sá þig í sjónvarpinu í gær. Þú ert gaurinn úr Idolinu"
Á:"Jájá, ég var í Idolinu í gær"
E-r gaurar fyrir aftan:"Hva, heldurðu bara að þú fáir að skjótast inn í röðina því að þú ert e-r sjónvarpsstjarna (alls ekki sagt í neinum illum tón)
Á:"Já, það er tekið út með sældinni að vera Kalli Bjarni"
Dyravörður:"Jæja, þið næst inn. Má ég sjá skilríki?"

Hópurinn réttir dyraverðinum skilríki sín. Tíminn líður. Skilríki Ásgeirs eru skoðuð gaumgæfilega.

Dyravörður:"Heyrðu, það er annar strákur búinn að nota þessi skilríki í kvöld. Annað hvort fer ég upp og næ í hann og við gerum e-ð vesen úr þessu eða þú sleppir því að koma inn í kvöld."


Ásgeir skallar dyravörð og labbar inn.

Á:"Reyndu að gera e-ð vesen úr þessu!"

Síðustu tvær línurnar voru stórýktar. Annað er skrifað eftir besta minni.

Gærkvöldið kenndi mér eftirfarandi:
  • Það borgar sig kannski ekki að vera með skilríki frá þeim sem þú djammar oftast með. Sérstaklega ekki þegar að þrír menn sem djamma oftast saman treysta á ein skilríki.
  • Dyraverðir eru skussar.
  • Eftir að ég snéri frá Prikinu rakst á Fúsa. Honum hafði verið kastað út því hann mundi ekki eftir í hvaða stjörnumerki hann átti að vera skv. skilríkjunum. Ef við samtvinnum þennan punkt við punktinn að ofan fáum við merkilega niðurstöðu. Þar sem dyraverðir eru skussar er nánast líffræðilega ómögulegt að þeir geti lagt á minnið hvaða stjörnumerki á við hvaða dag. Það að ætla að þeir geti munað svona flókna hluti er einfaldlega kjánalegt og því er ástæðulaust að vera tekinn á e-u svona. Það eitt að svara þeim strax veldur skammhlaupi í heila þeirra og kemur í veg fyrir svona.
  • Ef maður er búinn að eiga súra daga borgar sig ekki að gera tilraunastarfsemi við kaup á hvítvíni. Ratatoskr og gangaslagurinn, toppurinn á hatri almættisins á mér þessa dagana, gaf mér ástæðu til að ætla að vínið sem ég keypti mér væri ekki það besta og kom það frekar mikið á daginn.

    Hins vegar nýtti ég mér þekkingu mína á líkindareikningi og ályktaði sem svo að svona óheppni gæti ekki haldið áfram endalaust. Þegar ég hafði lokið við að fara í Ríkið áðan í Kringlunni ákvað ég að gefa skít í líkindaguðina og kaupa mér lottómiða. Til að kóróna allt saman, happaþrennu líka. Happaþrennan skilaði mér í 100 króna tapi. Ég hlýt að vinna í lottóinu í kvöld...
  • Engin ummæli: