þriðjudagur, mars 29

Síðasta Heimis færslan í bili

Heimir Pálsson hefur löngum verið þekktur fyrir að skrifa afspyrnulélegar kennslubækur í íslensku. Færri vita hins vegar að hann er einnig liðtækur stjarneðlisfræðingur eins og eftirfarandi mynd sýnir:

Þversögn

Og sumir sóuðu æsku
sinni í nám á meðan
aðrir vörðu henni í vín.

(Tómas Guðmundsson)



Og enn aðrir nóttum
í að lesa íslenskubækur.

(Ásgeir Birkisson)

mánudagur, mars 28

Snorri Sturluson

Þegar að maður á að vera að læra undir íslenskupróf fer maður að gera...

Stopp. Þessi inngangur er þreyttur! Byrjum aftur...

Ég var að leita að e-u efni um Snorra Sturluson á netinu sem gæti gagnast mér í próflestrinum. Rakst ég þá á ansi merkilega síðu en það var heimasíða kennara í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Jæja, þarna er e-r glósur um Snorra, en það sem vakti helst athygli mína var eftirfarandi mynd:



Nú veit ég ekki með ykkur lesendur góðir, en ég hafði ekki alveg ímyndað mér Snorra Sturluson á þennan veg...

sunnudagur, mars 27

Elvis Presley



Sennilega eru fáir tónlistarmenn sem eiga lög sem passa við jafnmörg tækifæri og Elvis Presley...

föstudagur, mars 25

Djúpar pælingar, mjög djúpar pælingar

Íslenskupróf fá mann til að hugsa djúpt, mjög djúpt. T.d. áðan var ég að lesa Lestrarkver og ákvað að fá mér yfir því Marsstykki sem keypt var í e-i utanlandsferð hjá fjölskyldumeðlim. Um leið og ég beit í gegnum súkkulaðið fór ég að pæla. Nú vil ég benda fólki á meðfylgjandi mynd:

Sko. Eins og flestir þeir sem bragðað hafa Marssúkkulaði (eins og ég geri ráð fyrir að flestir þeir sem lesa þetta hafi gert) er Mars samsett af þremur mismunandi birtingaformum sykurs. Utan um allt er súkkulaðihjúpur, og þegar honum lýkur tekur við karamella. Gott og vel. Hvað í andskotanum er þetta samt sem er fyrir neðan karamelluna? Frauð? Deig? Kítti? Ber þetta e-ð nafn? Úr hverju er þetta?

Og afhverju hefur ekki risið upp alþjóðleg hreyfing sem krefst þess af Mars-M&M að upplýsa hvað þetta er? Og afhverju hélt ég ekki frekar áfram að lesa í íslensku í staðinn fyrir að pæla í þessu?

fimmtudagur, mars 24

Velkominn heim!

Í tilefni af heimkomu heimsmeistarans fyrrverandi Bobby Fischer býður bandaríska sendiráðið á Íslandi, Laufásvegi, gestum og gangandi í heljarinnar heimkomuhátíð í kvöld. Boðið verður upp á léttar veitingar, Budweiser bjór, Ben&Jerry's ís, McDonalds og Cherry Cola. Lifandi tónlist, uppistand og hver veit nema Fischer sjálfur mæti á svæðið og taki létt fjöltefli.

Bandaríska sendiráðið - sér um sína!

Eurovision

Alveg er ég viss um að við eigum eftir að vinna þetta í ár. Heyrði í fréttunum í gær að okkur sé spáð sigri á vinsælli áhugamannasíðu um keppnina, það eitt tryggir okkur sigur!

Vinsamlegast athugið

Ekki halda nein ammæli dagana 28. júlí til 27. ágúst. Ég verð úti og þætti mjög leitt að komast ekki.

miðvikudagur, mars 23

Nýtt útlit

Þar sem ég hef ekkert betra við tímann að gera núna ákvað ég að eyða honum í að setja nýtt útlit upp á þessa síðu. Þeim sem líkar vel við breytingarnar mega þakka Heimi Pálssyni fyrir að gefa mér tíma til að gera þetta, án þess að bækur hans hengu yfir mér líkt og sverðið yfir Damokleusi forðum hefði ég án efa nýtt tímann í eitthvað nytsamlegra.

Annars er það bara djamm á morgun. Síðan mun lestur fyrir stúdenstsprófið í íslensku gleypa sálu mína.

sunnudagur, mars 20

Biðraðir

Biðraðamenning Íslendinga er magnað fyrirbæri. Til dæmis voru fleiri í röðinni fyrir utan Prikið síðustu nótt en inni á því.

Löngu tímabærar á tenglalistanum hafa verið gerðar upp á síðkastið. Aldrei að vita nema að enn fleiri verði gerðar á næstunni. Ef ég nenni. Alveg eins og Helgi Björns söng í den.

laugardagur, mars 19

Dyravörður deyr (e. Death of a security guard)

Endurgerð leikrits Arthurs Miller eftir Á. Birkisson.

Staður: Röðin á prikinu
Tími: Aðfaranótt laugardagsins 19. mars 2005

Ásgeir labbar niður Laugaveginn ásamt Einari Búa. Á röðinni á Prikið hittir hann hluta Grammanna og ákveður að hitta hinn hluta Heimsborgaranna þar inni. Einar Búi hafði fyrr um kvöldið þurft að bíta í það súra epli að skilríki hans virkuðu ekki á staðinn og ákveður að halda heim á leið. Framhaldið varð eftirfarandi:

E-r stelpur sem Ásgeir hefur ekki hugmynd um hverjar eru: "Hæ, varst þú ekki gaurinn í idolinu í gærkvöldi?"
Ásgeir: "Ha?"
E-r S:"Jújú, ég er viss um að ég sá þig í sjónvarpinu í gær. Þú ert gaurinn úr Idolinu"
Á:"Jájá, ég var í Idolinu í gær"
E-r gaurar fyrir aftan:"Hva, heldurðu bara að þú fáir að skjótast inn í röðina því að þú ert e-r sjónvarpsstjarna (alls ekki sagt í neinum illum tón)
Á:"Já, það er tekið út með sældinni að vera Kalli Bjarni"
Dyravörður:"Jæja, þið næst inn. Má ég sjá skilríki?"

Hópurinn réttir dyraverðinum skilríki sín. Tíminn líður. Skilríki Ásgeirs eru skoðuð gaumgæfilega.

Dyravörður:"Heyrðu, það er annar strákur búinn að nota þessi skilríki í kvöld. Annað hvort fer ég upp og næ í hann og við gerum e-ð vesen úr þessu eða þú sleppir því að koma inn í kvöld."


Ásgeir skallar dyravörð og labbar inn.

Á:"Reyndu að gera e-ð vesen úr þessu!"

Síðustu tvær línurnar voru stórýktar. Annað er skrifað eftir besta minni.

Gærkvöldið kenndi mér eftirfarandi:
  • Það borgar sig kannski ekki að vera með skilríki frá þeim sem þú djammar oftast með. Sérstaklega ekki þegar að þrír menn sem djamma oftast saman treysta á ein skilríki.
  • Dyraverðir eru skussar.
  • Eftir að ég snéri frá Prikinu rakst á Fúsa. Honum hafði verið kastað út því hann mundi ekki eftir í hvaða stjörnumerki hann átti að vera skv. skilríkjunum. Ef við samtvinnum þennan punkt við punktinn að ofan fáum við merkilega niðurstöðu. Þar sem dyraverðir eru skussar er nánast líffræðilega ómögulegt að þeir geti lagt á minnið hvaða stjörnumerki á við hvaða dag. Það að ætla að þeir geti munað svona flókna hluti er einfaldlega kjánalegt og því er ástæðulaust að vera tekinn á e-u svona. Það eitt að svara þeim strax veldur skammhlaupi í heila þeirra og kemur í veg fyrir svona.
  • Ef maður er búinn að eiga súra daga borgar sig ekki að gera tilraunastarfsemi við kaup á hvítvíni. Ratatoskr og gangaslagurinn, toppurinn á hatri almættisins á mér þessa dagana, gaf mér ástæðu til að ætla að vínið sem ég keypti mér væri ekki það besta og kom það frekar mikið á daginn.

    Hins vegar nýtti ég mér þekkingu mína á líkindareikningi og ályktaði sem svo að svona óheppni gæti ekki haldið áfram endalaust. Þegar ég hafði lokið við að fara í Ríkið áðan í Kringlunni ákvað ég að gefa skít í líkindaguðina og kaupa mér lottómiða. Til að kóróna allt saman, happaþrennu líka. Happaþrennan skilaði mér í 100 króna tapi. Ég hlýt að vinna í lottóinu í kvöld...
  • föstudagur, mars 18

    Textapæling

    Í tilefni af því að Megas á afmæli í ár hyggst ég endurskrifa viðlag lagsins Þótt þú gleymir Guði í samræmi við núverandi tíðaranda.

    Þótt þú gleymir Heimi Pálssyni
    Þá gleymir Heimir Pálsson ekki þér

    Hins vegar þá gleymir þú
    Öllu sem þú varst búin(n) að lesa
    Um leið og þú lokar bókinni


    Hygg ég að þetta verði sumarsmellurinn 2005, og slái jafnvel Macarena við í vinsældum.

    þriðjudagur, mars 15

    Merkisatburður

    Staður: Kaldársel
    Tilgangur: Skoða stjörnur
    Veður: Kalt
    Afleiðingar: Fætur teknir af við mjöðm vegna kalsára.

    föstudagur, mars 11

    Fiðluballið

    Fór fram í gær. Sjúk stemmning. Hófst á því að franski sjómaðurinn Roisant náði í mig og Gretti. Stefnan var sett á Domino's. Inn á Domino's löbbuðu þrír menn, tveir í smóking og einn í flippuðum, röndótt buxuðum sjakett. Þrír menn fengu ekki afgreiðslu. Líklegast hefur afgreiðslufólkið talið að hér væru vitleysingar á ferð og ætluðu ekki að láta ná sér á sama bragði og afgreiðslufólkið á Grillinu í Englum alheimsins. Endaði þó seint og um síðir að við fengum mat okkar afhendan og brunuðum með hann til móts við bekkjarfélaga okkar.

    Áður en farið var inn á Domino's kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér hvílík skemmtun það væri að fara þangað inn í þessum klæðnaði og ganga með staf í hönd. Þegar inn væri komið skyldi síðan labbað upp að afgreiðsluborðinu og beðið eftir starfsmanni. Þegar starfsmaðurinn væri kominn skyldi stafnum lyft upp og honum potað í starfsmanninn. Ekkert meira. Bara pota í almúgann. Slíka hrifningu vakti þessi hugmynd hjá mér að ég viðraði hana við einhverja sem ég talaði við á ballinu. Vakti þessi hugmynd líka hrifningu hjá þeim og víst er að þessi hugmynd verður ekki látin óhreyfð. Stefnt er að hópferð á Lækjartorg þar sem potað verður í fólk með staf.

    Rétt er að taka það fram að pizzuhugmyndin var ekki mín. Ég stakk frekar upp á snittum en einn heimsborgari má sín lítils á móti átta plebbum. Lýðræðið er rotnandi hræ. Eftir að matar hafði verið neytt var haldin hópferð nemenda Eðlisfræðideildar I til að skila heimadæmum í heimahús. Mæltist þetta einstaklega vel fyrir hjá Birgi (ég geri fastlega ráð fyrir því að allir sem lesa þetta viti um hvern er rætt) og höfðu allir sem málið snerti mikið gaman af. Eftir það var haldið niður í Iðnó.

    Sjálft fiðluballið var skemmtun frábær. Með fullt danskort og nóg af frjálsum dönsum voru sólar lakkskónna spændir upp og er mál flestra, þ.á.m. mitt, að sjaldan hafi ball verið jafnskemmtilegt. Eftir ballið var gengið fylktu liði kringum Tjörnina þessa stjörnubjörtu nótt og naut ég þar samfylgdar Maddýjar. Vegfarendur voru það heppnir að vera veifað af okkur (háaðalsveifi, jafnvel konunga- og drottningaveifi) og víst er að þegar stafapotshugmyndin verður framkvæmd verður þetta hluti af henni. Eftir ballið var svo haldið á Hressó, lent í hrókasamræðum við Línu og síðan haldið heim á leið.

    Frábært kvöld sem náði nýjum hæðum þegar mér tókst að sofa yfir mig í morgun.

    fimmtudagur, mars 10

    Páfi var einn í tölvulandi



    Páfi, páfi, já hann páfi tölvukall...

    miðvikudagur, mars 9

    Áskorun



    Hér með skora ég á e-n flippaðan strák í 6. bekk. Áskorunin felst í því að í stað þess að dansa á fiðluballinu á morgun á viðkomandi að spila á lüftgítar allan tímann, því eins og allir vita þá dansa strákar ekki.

    Verðlaunum heitið.

    ---

    Uppfærsla: Nú rétt í þessu (02:11) var Darri að stinga upp á að í stað lüftgítars skyldi leikið á lüftfiðlu. Tek ég athugasamd hans til greina og breyti áskoruninni hér með.

    þriðjudagur, mars 8

    Ójá



    I.K.Dairo er svakalegur tónlistarmaður, helsta stjarna juju tónlistarinnar í Nígeríu á 7. áratugnum og eini afríski tónlistarmaðurinn sem hlaut MBE orðu. I.K.Dairo er enn þann dag mest metni tónlistarmaður í sögu Nígeríu, en þrátt fyrir að hafa tekið sér hlé frá tónlistarsköpun á áttunda áratugnum kom hann fílefldur til leiks á þeim 10. og skemmti löndum sínum allt til dauðadags 1996. Því miður get ég ekki boðið ykkur lesendur góðir upp á tóndæmi, en ljóst er að öllum árum verður róið í þeim tilgangi að nálgast disk með honum fyrir næsta Heimsborgarafund.

    mánudagur, mars 7

    Fiðluballið nálgast óðfluga...



    ...skýrt merki um að maður sé að klára MR. Kæru 6. bekkingar, ég býð ykkar velkomna á grafarbakkann. Næsta stopp: Elliheimilið Grund.

    Þessi færsla er samin undir áhrifum All of My Love með Led Zeppelin af plötunni In through the outdoor, sem var einmitt þeirra síðasta plata með John Bonham innan borðs. Ætli þetta segi manni ekki bara að allt taki e-n tímann enda?

    Linkalisti uppfærður



    Loksins kom maður þessu í verk, þeim sem vilja kvarta er bent á næsta þjónustuborð (eða kommentakerfi). Annars er það helst að frétta að það er ekkert að frétta.

    fimmtudagur, mars 3

    Kvöldhugleiðing



    More Than This með Bryan Ferry og félögum í Roxy Music er yndislegt lag.

    miðvikudagur, mars 2

    Bloggleysi síðustu daga



    Er alfarið leti um að kenna. Hins vegar er ein saga sem ég hef viljað segja allt frá því á laugardaginn, en þá bar það helst til tíðinda að Villa Skúnkulaði tókst að vera fyndinn. Alvöru fyndinn, ekki bara vandræðalegþögn fyndinn. Varð ég fyrstur manna meðal gesta hjá Jóni Bjarna til að kveikja á hvað hafði gerst, og þegar ég mælti hin fleygu orð: "Villi, þú varst fyndinn" misstu flestir viðstaddir hökuna niður í gólfið. Einn maður missti þó ekki hökuna niður í gólfið, gestgjafinn sjálfur, þar sem að hann var vant við látinn og missti því af þessum einstaka atburði. Hef ég af þessu tilefni bætt inn nýrri málsgrein í ímynduðu skáldsöguna mina um Skúnkulaðið sem væntanleg er á markað í næsta lífi:
    "Og í þetta eina augnablik var Skúnkulaðið fyndið. Skömmu síðar var allt komið í samt horf."

    Síðan er víst að ég verð í sjónvarpinu í kvöld að draga í undanúrslit í Gettu Betur, og ég veit það jafnilla og þið afhverju ég er að skrifa um það hérna...

    Jæja, best að drífa sig í förðun.