fimmtudagur, júní 23

Heimskar auglýsingar

Þegar ég er í vinnunni er ég oft í þeirri aðstöðu að geta hlustað á útvarpið á meðan ég vinn. Verður þá oftast fyrir valinu annað hvort X-FM ellegar X-ið. Báðum þessum stöðvum er haldið uppi af sömu fjórum lögunum en það er önnur saga sem lesa má í næsta bindi. Ekki slaufu. Hohoho.

Nú er fimmaurabröndurunum lokið.

Allavega. Þegar ég er að hlusta á þessi sömu fjögur lög í mismunandi röð er iðulega skotið inn auglýsingum eins og gerist og gengur á öllum útvarpsstöðvum nema Rondo 87.7. Enn og aftur tekst meirihluta íslensks auglýsingaiðnaðar að sanna fyrir mér algjört vanhæfi sitt enda eru þær auglýsingar sem berast til eyrna manns mest megnis rusl. Ein auglýsing öðrum fremur hefur þó vakið athygli mína fyrir heimsku, en sú auglýsing er komin frá gæðamatsölustaðnum McDonald's þar sem ástríða er lögð í sérhvern hamborgara. Auglýsingin hljómar svo:
"McFlurry fæst aðeins á McDonald's"

Nú vantar mig einungis heimilisfang til að senda Nóbelsverðlaunin á. Hvaða fávita dettur annað í hug en að McFlurry fáist einungis á McDonald's? Er e.t.v. stór hópur fólks þarna úti í hinum stóra heimi sem verður rosalega hissa þegar það fer í aðrar ísbúðir, pantar sér McFlurry til þess eins að verða fyrir þeim gífurlegu vonbrigðum að komast svo að því að McFlurry fáist aðeins á McDonald's? Var svo gífurlega mikill þrýstingur búinn að myndast á forráðamenn McDonald's á Íslandi (Lyst ehf.) að þeir sáu sig tilneydda til að fara að útvarpa auglýsingu til að leiðrétta þennan misskilning? Voru starfsmenn ísbúða landsins búnir að fá nóg af samtölum á borð við:

Viðskiptavinur: Já ég ætla að fá einn McFlurry
Starfsmaður: Nei því miður fæst McFlurry einungis á McDonalds
V: Nei heyrðu mig nú, þá sleppi ég þessu bara
Og svo rýkur viðskiptavinurinn út...

og sendu McDonald's kvörtun? Ætti McDonald's ekki frekar að einbeita sér að því að það bjóði upp á fljótlegustu leið sem í boði er til að fá kransæðastíflu? Ég sé miklu frekar auglýsingar á borð við:
"McDonald's - Og kransæðarnar springa"
"McDonald's - Og þú hættir að geta hreyft þig"

Nei, bara svona pælingar vinnandi manns...

Engin ummæli: