fimmtudagur, júní 23

Heimskar auglýsingar

Þegar ég er í vinnunni er ég oft í þeirri aðstöðu að geta hlustað á útvarpið á meðan ég vinn. Verður þá oftast fyrir valinu annað hvort X-FM ellegar X-ið. Báðum þessum stöðvum er haldið uppi af sömu fjórum lögunum en það er önnur saga sem lesa má í næsta bindi. Ekki slaufu. Hohoho.

Nú er fimmaurabröndurunum lokið.

Allavega. Þegar ég er að hlusta á þessi sömu fjögur lög í mismunandi röð er iðulega skotið inn auglýsingum eins og gerist og gengur á öllum útvarpsstöðvum nema Rondo 87.7. Enn og aftur tekst meirihluta íslensks auglýsingaiðnaðar að sanna fyrir mér algjört vanhæfi sitt enda eru þær auglýsingar sem berast til eyrna manns mest megnis rusl. Ein auglýsing öðrum fremur hefur þó vakið athygli mína fyrir heimsku, en sú auglýsing er komin frá gæðamatsölustaðnum McDonald's þar sem ástríða er lögð í sérhvern hamborgara. Auglýsingin hljómar svo:
"McFlurry fæst aðeins á McDonald's"

Nú vantar mig einungis heimilisfang til að senda Nóbelsverðlaunin á. Hvaða fávita dettur annað í hug en að McFlurry fáist einungis á McDonald's? Er e.t.v. stór hópur fólks þarna úti í hinum stóra heimi sem verður rosalega hissa þegar það fer í aðrar ísbúðir, pantar sér McFlurry til þess eins að verða fyrir þeim gífurlegu vonbrigðum að komast svo að því að McFlurry fáist aðeins á McDonald's? Var svo gífurlega mikill þrýstingur búinn að myndast á forráðamenn McDonald's á Íslandi (Lyst ehf.) að þeir sáu sig tilneydda til að fara að útvarpa auglýsingu til að leiðrétta þennan misskilning? Voru starfsmenn ísbúða landsins búnir að fá nóg af samtölum á borð við:

Viðskiptavinur: Já ég ætla að fá einn McFlurry
Starfsmaður: Nei því miður fæst McFlurry einungis á McDonalds
V: Nei heyrðu mig nú, þá sleppi ég þessu bara
Og svo rýkur viðskiptavinurinn út...

og sendu McDonald's kvörtun? Ætti McDonald's ekki frekar að einbeita sér að því að það bjóði upp á fljótlegustu leið sem í boði er til að fá kransæðastíflu? Ég sé miklu frekar auglýsingar á borð við:
"McDonald's - Og kransæðarnar springa"
"McDonald's - Og þú hættir að geta hreyft þig"

Nei, bara svona pælingar vinnandi manns...

þriðjudagur, júní 21

Góð mynd



Ef vel er að gáð má sjá sjarmatröllin Agnar Darra Lárusson og Sigurjón Norberg Kjærnested bregða fyrir á þessari mynd. Tókst þeim að troða sér í Moggann eftir sigur í ræðukeppni grunnskólanna í 10. bekk og eru þeir ennþá að komast inn á skemmtistaði í VIP röðum útaf því. Vil ég því hvetja alla til að grípa hraustlega utan um þá tvo næst þegar að þeir rekast á þá á förnum vegi og óska þeim til hamingju með árangurinn, þeir eiga það skilið.

(Ég fann s.s. þessa fyndnu mynd sem ég varð að koma á framfæri...)

föstudagur, júní 17

Geri aðrir betur

Sextán þúsund kall fyrir að vera átta tíma í sólbaði í dag. Ekki hverjir sem eru sem gera svona góða díla. Ef þetta góða veður heldur áfram legg ég hins vegar til að síesta verði tekin upp á Íslandi, það er náttúrulega bara brandari að maður þurfi að leita í skugga sökum hita á Íslandi.

Svo held ég að það megi með sanni segja að frumraun DJ Fiaskó hafi verið succes. Þetta var allavega hilvíti mikið stuð og DJ parið Fiaskó og Súkkes er komið til að vera...

þriðjudagur, júní 14

Söknuður

Ég saknaði ykkar allra (nema Darra því hann var með mér) á sérstakri Sagafilm forsýningu á Batman Begins. Bömmer fyrir ykkur...

laugardagur, júní 11

Gaman

Ég er skemmtilega útitekinn. Útivinna über alles. Vorkenni þeim hressilega sem þurfa að hírast inni í allt sumar í e-i súrri vinnu.

Vinnubloggfærslur standa alltaf fyrir sínu, ég veit...

þriðjudagur, júní 7

Ljúf uppgötvun

Það kvíslaðist um mig sæluhrollur í vinnunni í dag þegar ég áttaði mig á því að menn á borð við Dodda og Gretti væru að veiða og flaka fisk til að borga launin mín á sömu stundu og ég sat inni í upphituðum skúr í skjóli fyrir veðri og vindum og las sjálfsævisögu Bob Dylan.

föstudagur, júní 3

Afrek dagsins

1. Fór upp í námsráðgjöf Háskóla Íslands áðan og talaði þar við námsráðgjafa, líklegast í fyrsta skipti á ævi minni. Á mig voru farnir að sækja bakþankar varðandi val mitt á næsta ári en eftir ágætt spjall við námsráðgjafann varð ég staðráðnari en nokkru sinni fyrr að skella mér í hátæknieðlisfræðina. Um leið og ég kom heim dreif ég mig svo í að skrá mig í hátæknieðlisfræðina næsta ár áður en mér snerist hugur og er vonandi að ég hafi ekki verið að gera einhver reginmistök með því. Þetta verður örugglega fínt.

2. Mætti sprækur upp í 12 tóna og eyddi 6500 kalli á innan við hálfri mínútu. Miði á Antony & the Johnsons á NASA 11. júlí sem ég hvet alla til að mæta á og fjárfesting í disknum I Am a Bird now. Ég er að botnfíla þetta sem og langflestir þeir sem ég hef bent á þetta. Virkilega gaman að detta niður á svona gott efni og ég tilnefni diskinn nýkeypta hiklaust sem disk ársins, allavega enn sem komið er, og ljóst er að stórár er í vændum tónlistarlega séð ef hann á eftir að verða toppaður.

fimmtudagur, júní 2

Fyndið

Ég er að hlusta á Duran Duran. Ég tel ekki miklar líkur á því að ég fari á tónleikana með þeim...

Nýtt útlit

Bömmer ef þú ert að skoða þessa síðu í IE, virðist virka ágætlega á öllu öðru og ég er þreyttur og nenni ekki að vesenast meira í þessu.

Það var eitthvað meira sem ég ætlaði að segja en ég er búinn að gleyma því. Djúpt...

miðvikudagur, júní 1

Svona fyrir þá sem vildu vita

Þá er þetta með bestu diskum sem gefnir hafa verið út í ár að mínu mati:



Antony and the Johnsons - I Am a Bird Now


Svíkur fáa...

Töffarar helgarinnar

Tveir menn hljóta að standa upp úr sem töffarar helgarinnar:

1. Þorgrímur Þráinsson, sem gjörsamlega átti Júbílantaballið á laugardagskvöld eins og sést vel á
þessari mynd.
Viðlíka töffari hefur ekki sést hér á landi lengur en elstu menn muna og ljóst er að í huga hvers nýstúdents kom upp draumur um að vera álíka svalur og hann á júbílantaballinu eftir 25 ár og í huga hverrar nýstúdínu kom upp draumur um að fá einn dans við hann um kvöldið. Á óvart kom þó að vatsnbyssan víðfræga var ekki með í för og fékk reykingafólk því að stunda iðju sína óáreitt um kvöldið, þó að vísu hafi komist sá kvittur á kreik að hann hafi rifið rettu úr munni veislugests, traðkað á henni og sagt "Svona gera menn ekki". Sem er að sjálfsögðu rétt.

2. Jói Fel

Kappinn sá um allar veitingar í útskriftarveislu minni og mistókst að slá feilnótu líkt og vanalega. Álíka kræsingar hef ég ekki séð síðan að ég var viðstaddur veislur Loðvíks XIV í Versölum á sínum tíma eða þegar ég var staddur í Babættes Gæstebud. Meistarinn var meira að segja svo stórmannlegur að lauma með í veisluföngin nokkrum pökkum af hinu glænýja hafrakexi Jóa Fel sem er víst að slá í gegn í Hagkaupum þessa dagana. Enn þann dag í dag er ég að gæða mér á þessu gæðakexi og skil ég fullkomlega þær vinsældir sem hafrakexið hans Jóa er að öðlast, álíka hafrakexkökur hafa líklegast aldrei verið töfraðar fram.

Annars er ég líklegast að fara að skila inn umsókn í HÍ á morgun, fresturinn til að benda mér á að gera e-ð flippað á næsta ári er alveg að renna út...