fimmtudagur, febrúar 24

Um Tjarnarhringurinn



Einhvern tímann þegar ég hef nægan tíma ætla ég að útlista ítarlega skoðunum mínum á þessu fyrirbæri sem Tjarnarhringurinn er. Í bili ætla ég hins að láta mér nægja að segja frá afrekum dagsins:
  • Bæting um tæpa eina og hálfa mínútu frá því síðast.
  • Hækkun á einkunn um einn og hálfan.
  • Yfirlið.
  • Þeim snillingi sem datt í hug að hrúga niður bekkjum við endastöðina á hringnum er hér með boðið í afmælið mitt. Án bekkjarins lægi ég líklega á botninum á tjörninni núna.
  • Hlaup orsaka minnisleysi og kenni ég því Tjarnarhringnum í dag alfarið um öll afglöp sem ég á hugsanlega eftir að framkvæma í væntanlegum prófum.
  • Þess virði? Dæmi hver fyrir sig...
  • þriðjudagur, febrúar 22

    Hitt og þetta



    Þar sem að ég nenni ekki að skrifa samfelldan texta verður bloggað í punktum í þessari færslu.

  • Endurbætur á Cösu urðu að heilmiklu verki sem rændu mann heilbrigði.

  • Melódjammið heppnaðist frábærlega. Smá skemmdir að vísu en það reddast. Vonandi. Þeim sem hafa ekki hugmynd um hvað ég er að tala er vinsamlegast bent á að gleyma þessum punkti.

  • Frábært djamm, ekki jafnfrábær vinna að sama skapi daginn eftir. Það að ætla sér að vinna upp nám í tölvufræði í vinnunni eftir lítinn svefn nóttina áður ráðlegg ég engum.

  • Fyrirlestur sem ég átti að flytja heppnaðist víst frábærlega er mér sagt. Ég var ekki viðstaddur flutninginn svo að allir brandarar dóu víst í fæðingu, ef þeir hefðu komið með hefði verið um annað Gettysburgarávarp að ræða...
  • Gagnrýni á háskólakynningar:
      Verkfræðikynningin: Góð kynning, blés lífi í eld verkfræðiáhuga MR-inga

      Læknisfræðikynningin: Ekki alveg jafn góð. Mjög ekki alveg...

      Félagsvísindakynningin: Löglega afsakaður

  • Ætli stefnan verði ekki tekinn á verkfræðina á næsta ári úr þessu...

  • Góður Ratatoskr í dag, við ákváðum að hafa smá spennu í þessu til að byrja með en rétt eins og Fönix forðum daga snérum við fílefldir til leiks á ný...

  • Skítlegt eðli virðist vera innrætt í fleiri forseta en forseta Lýðveldisins...
  • föstudagur, febrúar 18

    Norðurljós



    Nú rétt í þessu urðum við Skunkurinn vitni að mjög flottum norðurljósum, þeim flottustu í langan tíma.

    Magnað.

    fimmtudagur, febrúar 17

    Maður er svo flippaður...



    Eins gott að jarðfræðiguðirnir ljósti mig þekkingareldingu í nótt, annars munu spretta úr höfði mínu fullskapaðar heimatilbúnar kenningar á prófinu á morgun líkt og Aþena gerði hér forðum úr höfði Seifs.

    þriðjudagur, febrúar 15

    Óminnishegri!



    Læstu klóm þínum í mig og fljúgðu með mig inn í nóttina.


    Eitthvað þessu líkt hefði ég viljað hrópa áðan. Í stað þess sit ég klukkan tvö að nóttu og reyni að tjasla saman verkbók í eðlisfræði. Nick Drake er vel við hæfi á svona stundu...

    föstudagur, febrúar 11

    Úr dönsku hefti um líkindareikning:



    Fiasko!

    þriðjudagur, febrúar 8

    Pólitískt blogg



    Sat áðan fund með menntamálaráðherra ásamt kennurum Menntaskólans, fulltrúum nemendafélaganna og öðrum góðum gestum. Nú má hverjum og einum það fullljóst vera að önnur eins firra og að stytta framhaldsskólann hefur ekki borist til eyrna mér síðan að ég frétti að Bakkabræður ætluðu sér að bera inn ljós í húfum sínum. Þorgerður Katrín minnti mig á lélegan Sólbjartsræðumann sem samþykkti fyrir mistök að mæla með fyrirfram töpuðum málsstað, þrástagaðist á sömu punktunum sem að fundarmenn gleyptu að sjálfssögðu ekki við og vitnaði ótt og títt í álit ónafngreindra sérfræðinga, en jafnvel hinir slökustu Sólbjartsræðumenn hafa þó vit á því að skálda upp e-r nöfn á þá. Þorgerður átti ekki roð í fundarmenn þegar kom að spurningunum sem brunnu á vörum allra og uppskar fyrir vikið verðskuldað fliss (sem að hún reyndi að snúa gegn kennurunum, en þau orð sem engan þunga bera ná ekki í gegnum þykkan varnarskjöld fundarmanna). Það hljóta að teljast nýmæli ef að trúðar ætla sér að stjórna menntakerfi heillar þjóðar.

    Þau rök sem Þorgerður kom með voru í flestan stað mjög hæpin og ljóst er að aðaltilgangur styttingarinnar hlýtur að vera að lækka útgjöld ríkissin til menntamála, nokkuð sem ríkisstjórn Íslands ætti að skammast sín fyrir nú í upphafi 21. aldarinnar. Allt annað virðist vera framsett til að slá ryki í augu gagnrýnenda, en þegar rykstorminn hefur lægt hljóta flestir að sjá í gegnum blekkinguna. Ef augu mín voru opin fyrir fundinn þá eru þau opnari en landamæri Bandaríkjanna á 19. öld núna, og fullvíst að enginn þeirra sem láta sig málið varða ætla að sitja auðum höndum á næstunni. Eflaust gæti ég skrifað mun lengri færslu um þetta mál, en krefjandi stærðfræðipróf á morgun kallar (en að sögn ráðherra er stærðfræðikennslan á menntaskólastigi víst fyrst og fremst upprifjun á grunnskólastærðfræðinnni) og ég ætla að njóta þess að geta stundað krefjandi nám á framhaldsskólastigi á meðan að það stendur enn til boða. "Tími aðgerðanna er runninn upp" sagði Lenín,"Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan" sagði Roosevelt og "I'm so proud of it i put my name on it" sagði George Forman. Þessi síðasta tilvitnun átti alls ekki heima þarna. Aðgerðir ráðherra eiga að sama skapi alls ekki heima í upplýstu þjóðfélagi á 21. öldinni. Ég vil því að endingu klykkja út með hinum frægu orðum Caesars sem eiga jafnvel við nú í dag og þau áttu við í Rómaveldi til forna, auk þess sem ég bið lesendur vel að lifa og taka þátt í þeim aðgerðum sem framundan eru. En eins og Caesar sagði:
    Þorgerður Katrín - Þú söks!

    mánudagur, febrúar 7

    Merkisatburðarfrásögn í tilefni söguprófs



    7. febrúar 2005 verður lengi minnst í fyrirtækjasögu Íslands en þá stofnaði Vilhjálmur "Skunkur" Þórarinsson fyrirtækið Svik & Prettir ehf.

    Var það Vilhjálms fyrsta verk sem forstjóri fyrirtækisins að víkjast undan að veita námsmanni við Menntaskólann í Reykjavík, Ásgeiri að nafni, bjór á barnum (hvaða bar var reyndar ótilgreint), en loforð þess efnis hafði hann gefið í færslu á heimasíðu fyrirtækisins, http://blog.central.is/alvar, en síða þessi var einnig þekkt fyrir ýmiss konar kreditkortabrask, sukk og svínerí. Orðrétt á heimasíðunni stóð:

    "Tippaði í lengjunni áðan. Lagði vel undir. Ef Liverpool vinnur (sem ég efast ekki um), Tottenham vinnur (Haukur, það er eins gott að þínir menn taki þetta) og ef Arsenal vinnur þá vinn ég 11000 kall. Ef þetta gerist þá heiti ég hverjum þeim sem skráir sig fyrstur í gestabókina einum bjór á barnum þegar ég djamma með þeim einstaklingi næst."

    Ásgeir, verandi mesti áhugamaður um fótbolta á landinu að Valla sport einum undanskildum, brá undir sér betri fætinum og heimsóttu heimasíðu íslensku Barbarasamtakanna, fotbolti.net, og þar mátti m.a. annars finna eftirfarandi úrslit í leikjum er fram fóru 5. febrúar, eða tveimur dögum fyrir stofnun fyrirtækisins:
  • Liverpool 3 - 1 Fulham
  • Tottenham 3 - 1 Portsmouth
  • Aston Villa 1 - 3 Arsenal
    Almannarómur var á einu máli. Ljóst var að Skunkurinn ætlaði sér stóra kökusneið af undirheimum Reykjavíkur og því reið mikið á að tilraunir hans yrðu kæfðar í fæðingu. Tók höfundur þessarar færslu sig því til og beindi kastljósi sínu að glæpamálinu, ekki einungis í von um að það yrði upplýst heldur einnig til að vera öðrum sakleysingjum sem enn trúðu á hið góða í heiminum víti til varnaðar. Eina leiðin fyrir Skunkinn til að komast aftur á hina beinu braut hreinnar samvisku, siðferðiskenndar og hófsams lífernis var að gefa Ásgeiri þann bjór er hann fyrir löngu hafði lofað honum, ellegar mátti ljóst vera að Skunknum biði aðeins þjáning, fyrst í hinum veraldlega heimi en síðan eilífðardvöl í Hreinsunareldinum.

    Og þá var það bara spurningin, hvað ætlaði Skunkurinn sér að gera?

    Fylgist spennt með á Rostungnum...
  • Afreksmaðurinn Ásgeir



    Í dag er ég búinn að afreka þetta:
  • Vaknaði klukkan fjögur í morgun

  • Fékk mér tvær skálar af Kellogs Special K

  • Hljóp þrjá kílómetra

  • Og ég er á leiðinni í sund núna


  • Já, það má sko með sanni segja að morgunstund gefi gull í mund!

    laugardagur, febrúar 5

    Vísindaleg tilraun



    Í gær framkvæmdi ég vísindalega tilraun.

    Niðurstaða: Það er hægt að fara niður í bæ um helgar og vera á bíl á sama tíma. Merkilegt...