Árshátíð, Hróaskelda og fleira
Nú ætla ég að blogga um árshátíðina. Þetta var skólabókardæmi um inngang sem fær fólk til að stinga úr sér augun til að sleppa við það að lesa meira. Ég veit um einn sem má taka mark á þessu. Fúsi, þú veist hver þú ert.
Já. Árshátíðin var bara nokkuð ágæt. Jet Black Joe léku fyrir dansi, ef dans skyldi kalla, en gólfið var frekar tómt allan tímann sem þeir léku. Þess í stað þeytti DJ Paul Oscar skífum á efri hæðinni og var pakkað þar, enda ekki við neinu öðru að búast. Jet Black Joe stóðu sig ágætlega, en samt sem áður tel ég þá hljómsveit vera betur til þess fallna að leika á tónleikum en á dansiballi eins og haldið var á Breiðvangi síðastliðinn fimmtudag. Í lok dagskrárinnar kom svo Kalli Bjarni og tryllti lýðinn, og veit ég um ófáa pilta að nafni Sigfús sem fóru með sjóaranum knáa frá Grindavík baksviðs að þræða öngla. Hvers vegna í ósköpunum er ég að segja frá þessu? Ég er nokkuð viss um að allar þær fáu hræður sem lesa þetta viti þetta allt. Tilgangsleysi dauðans (rétt eins og kótangens). Ballið nú var frekar langt frá því að toppa Skólafélagsárshátíðina, og ætla ég að skella 60% á ballið, eða þremur dansskóm af fimm. Skólafélagsárshátíðin fékk 90% eða fjóra og hálfa dansskó.
Tíðindi dagsins eru svo þau að ég er að fara á Hróaskeldu. Þessi frétt var í boði Boga Ágústssonar. Fjárfesti ég í einum miða áðan og verður haldið í góðra vina hópi út fyrir landssteina til lands Kim Larsen og Margrétar Þórhildar í lok júní.
Í gær fór ég aftur á hamborgastaðinn Old West. Hafði borgurunum ekki fipast flugið síðan ég fór þangað fyrst en nú var meira að gera en þegar ég fór fyrst. Slapp ég samt við röð sem ég tel vera frekar skrítið á föstudagskveldi, og er það vonandi að þessum stað verði ekki lokað sökum dræmrar aðsóknar. Krakkar, prófið að fara á Old West (og nei, ég er ekki á prósentum). Fór ég svo í þriðja sinni á útsöluna í Skífunni, og bætti nokkrum sögulegum diskum í safnið. Má þar nefna diskinn Uppteknir með Pelican, en hann er í einu orði sagt frábær.
Einnig hitti ég Ólaf Ragnar Grímsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Honum sagði ég bara að þegja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli