mánudagur, október 24

Ný sjónvarpsstjarna fædd?

/*
Helvítis blogger var bilaður í allan gærdag, ég nenni hins vegar ekki að lesa yfir tímasetningar en þessi færsla á við laugardagskvöld.
*/

Í gegnum tíðina hafa atkvæði manna oft verið keypt á ódýran hátt með fríum
veitingum, og þá helst þeim er renna undan spenum Heiðrúnar í stríðum straumum.
Gísli Marteinn ákvað að reyna að leika þennan leik sem oft hefur reynst vel í
gærkvöldi og til að koma í veg fyrir að óharðnaðar sálir mundu láta blekkjast ákvað
ég að fórna mér og drekka í boði Gísla. Með því kom ég vonandi í veg fyrir að
einhver óstaðfastur fórnaði sínu atkvæði á altari Bakkusar, en áfengið sem ég og
nokkrir aðrir góðir menn innbyrtum hefði örugglega nægt í nokkur atkvæði.

Eftir þessa hetjudáð var ákveðið að halda á tónleika Bang Gang á Nasa en þegar á
Austurvöll var komið kom í ljós að röðin náði út að Alþingi. Óverandi
fæðingarhálfviti var fljótt tekin ákvörðun um að breyta áætlun kvöldsins og stefnan
þess í stað tekin á Hafnarhúsið þar sem rétt svo náðist í skottið á Jeff Who?. Að
sjálfsögðu náðum við partýlaginu, en skv. lögum og reglum Jeff Who? mega þeir víst
ekki spila það án þess að ég og Hlynur nokkur Grétarsson séu viðstaddir.

Nú, eftir að hafa skemmt okkur konunglega yfir partýlaginu (sem heitir réttu nafni
Barfly, en það er annað mál) ákváðum við að halda aftur í hetjuleiðangur til Gísla
og drekka nokkur atkvæði og var samansafnið af stórhættulegum frjálshyggjuplebbum
orðið gríðarlega umfangsmikið. Eftir að hafa hrært upp steypu í nokkrum þannig með
hugmyndum um stofnun fyrirtækis til að opna bjórflöskur (sem fékk miklar undirtektir
frá þeim er hana heyrðu) var haldið aftur í Hafnarhúsið á aðalnúmer kvöldsins, The
Zutons.

// Innskot: Nú er ég að fatta að þetta er dagbókarfærsla, held samt að ég haldi
áfram en bið alla þá er hafa móðgast afsökunar.

Allavega. Meðan að við Hlynur vorum að bíða eftir að Zutons mundu stíga á svið vatt
upp að okkur sér maður með sítt grátt hár. Í eftirdragi var hann svo með
myndatökumann með risastóra myndbandsvél. Frá því að ég hugsaði með mér "vá hvað það
væri fyndið ef hann mundi nú vilja taka viðtal við okkur" og þangað til hann bar upp
spurninguna "So guys, can I interview you" liðu ekki nema nokkur andartök og það
varð úr. Eftir að hafa látið upp úr mér e-a mestu þvælu í manna minnum (sem hljómaði
samt frekar trúanlega held ég, m.a. um að ég hefði farið á allar hátíðirnar og að
það að til væri gott reggí á Íslandi væri eins og belja á svelli (cow on ice að
sjálfsögðu) kom á daginn að mennirnir væru frá danska sjónvarpinu og væru að gera
heimildaþátt um Airwaves. Síðan skammaði ég þá fyrir að taka ekki viðtal við okkur á
dönsku, enda held ég að danski hreimurinn minn sé enn fagurri þeim enska. Eftir
nokkurra mínútna spjall á dönsku um Kim Larsen og álíka gleði tókust menn í hendur
og þökkuðu hver öðrum fyrir, að dönsku að sjálfsögðu. Ég hvet því alla lesendur
síðunnar úti í Danaveldi (sem skv. síðustu talningu hlaupa á þúsundum) sem og alla
þá sem njóta þess að vera með danska sjónvarpið á breiðbandi að fylgjast grannt með,
álíka vitleysu hef ég sjaldan tekið þátt í.

Engin ummæli: