fimmtudagur, janúar 26

Sjónvarpsblogg

Nú áðan sat ég í makindum mínum og horfði á fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Að honum loknum leit fjarstýringin til mín tælandi brosi og lokkaði mig til að taka sig upp. Áður en varði voru stöðvaheitin farin að fljúga fyrir framan sjónu mína líkt og gæsir í oddaflugi. Þegar að þau höfðu flogið fram hjá sjónvarpsstöðinni Sirkus leið ekki á löngu þangað til að vitund mín áttaði sig á því hvaða þáttur var í gangi en það sá ég um leið og stöðvaflakkið fór fram.

Partý 101.

Fylltur forvitni og dirfsku ákvað ég að nú skyldi verða af því. Loksins skyldi ég horfa á einhvern þeirra nýju þátta sem að tröllríða íslenskri dagskrárgerð þessa dagana. Loksins mundi ég verða viðræðuhæfur um hinar nýju sjónvarpsstjörnur. Loksins var kominn tími til að ég horfði á Partý 101.

Fimmtán sekúndum síðar stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu. Aldrei nokkru sinni hef ég eytt jafnmiklum tíma í jafnlítið.

Engin ummæli: