laugardagur, desember 10

Nei Sveppi, nei!

/*
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eyddist þessi færsla út og því miður öll kommentin með henni. Sem betur fer átti ég hana þau vistaða á traustum stað og því munu spellvirki Ofur-Huga, Simma og Jóa ekki hafa jafnmikil áhrif og ætla mætti í fyrstu.
*/

Eins og flestir hafa líklegast tekið eftir stendur stífur próflestur nú yfir hjá nemum Háskólans. Ýmsar skoðanir eru á því hvort að aumir stúdentar geti leyft sér að taka forskot á jólasæluna og lagt eyru sín við hlustir þegar jólalög berast á öldum ljósvakans til þeirra, en fyrir minn smekk skaðar eitt og eitt jólalag engan, ásamt freyðandi malt og appelsín blöndu og jafnvel smákökum líka.

Það var áðan.

Í aumkunnarverðri tilraun til að stinga próflesturinn af stóð ég upp frá tölvunni og hét för minni fram í eldhús nú fyrir skömmu. Þegar þangað kom inn var eins og venja ber kveikt á útvarpinu, Rás 2 ef nánar er tiltekið. Ég var ekki fyrr kominn inn um dyrnar áður en ljúfir upphafstónar eins af mínum uppáhaldsjólalögum ollu þrýstingsbreytingu við hljóðhimnu mína (jájá, ég er að fara í eðlisfræðipróf á morgun, mér er sama hversu asnalega þetta hljómar) og á svipstundu gleymdi ég öllum raunum Throckmortons frænda míns á eðlisfræðisviðinu og jólatilhlökkun festi klær sínar í sálartetrinu. Þetta sæluástand varði þó ekki lengi, því innan skamms rak ég mig á að eitthvað var ekki eins og vera. Jújú, laglínan var sú sama, og ég fékk ekki betur heyrt en að hljóðfæraleikurinn var áþekkur þeim er ég kannaðist við, þannig að hið eina sem eftir stóð vafasamt var söngurinn.

Eins og gleggstu lesendur hafa ef til vill kveikt á tilheyrði laglínan jólalaginu geðþekka Snow Is Falling sem löngum hefur létt lund mína, hvort heldur sem er í upprunalegu útgáfunni eða þá undir heitinu Snjókorn falla í flutningi Ladda. Þetta var hins vegar hvorugt. Í staðinn barði hlustir mínar óhljóð þau er helst mætti ætla að ættuð væru úr helvíti, þvílíka áþján óska ég engum manni að upplifa. Með snarræði tókst mér að stökkva að útvarpinu og rjúfa straum til þess og bjarga þar með hljóðhimnu minni en tíminn sem var til stefnu áður en blæða tók úr henni var teljandi í sekúndubrotum á báðum höndum einhents manns.

Jæja, þá eru líklegast allir búnir að fatta hvaða óskapnaði ég varð vitni að rétt í þessu. Enginn annar en sjónvarpsstjarna ársins fyrir nokkrum árum var hér búinn að taka eitt af skemmtilegri jólalögunum í sögu þeirra og klæmast á því svo eftir varð tekið. Einhver virðist hafa dáið og gert konung íslenskar afþreyingar (að kapteini Flygering undanskyldum að sjálfsögðu) að söngstjörnu án þess að hvorki kóngur né prestur væri spurður. Einhver ætti að segja umræddum manni, sem að sjálfsögðu er enginn annar en Sveppi, að halda sig við það sem honum fer best. Af einskærri góðmennsku minni hef ég ákveðið að taka það hlutverk að mér og segi því við Sveppa (sem ég geri fastlega ráð fyrir að lesi þetta blogg):

Sveppi. Haltu áfram að gera það sem þú gerir best. Í stað þess að syngja skaltu pissa á þig.



Í veikri von um að sættast við tilveruna rauk ég því í tölvuna á nýjan leik, skrifaði þessa færslu og setti tímamótaverkið Kósý Jól á. Það virðist hafa tekist...

Engin ummæli: