sunnudagur, ágúst 29

Saga til næsta bæjar



Hefst nú sögustund Heimsborgarans...

Þannig vill til að skrifstofa Skólafélagsins er nú komin í nýja húsið á Amtmannsstíg. Föstudaginn síðasta hélt ég á rölt um miðbæinn eftir skóla (og nokkurt stúss þar á eftir) og hélt það þjóðráð að skilja töskur mínar eftir á skrifstofunni, og ná svo í þær daginn eftir. Voru samferðarmenn mínir mér sammála um að þetta væri snjallræði, enda ekki lítill farangur sem fylgdi mér þennan dag. Líður nú og bíður, og ætla ég mér svo að komast inn á skrifstofu á laugardeginum. Vill þá ekki betur til en svo að þjófavarnarkerfið blessaða var komið á, og engin leið til að komast framhjá þeim þríhöfða hundi. Leitaði ég því að Hannesi eins og hundur að ljósastaur í Sahara, en ekki fannst tangur né tetur af honum. Var þetta ástand viðvarandi alla helgina, og eftir 11 tíma vinnu í dag sá ég fram á að ná ekki að lesa lexíur mínar fyrir morgundaginn. Hófust nú örvæntingarfullar hringingar út um allan bæ (reyndar aðeins Vesturbæinn (og smá út á Seltjarnarnes)) og virtist enginn getað séð að hinu tignarlega tegurhefti sem til stóð að leysa æfingar úr fyrir morgundaginn.

Ég var orðinn úrkula vonar þegar ég ákvað að síðasta hálmstráið væri að hringa í Kára nokkurn Sigurðsson, og gá hvort að hann væri nokkuð til í sjá af heftinu sínu forkunnarfagra yfir nótt. Var hann meira en til í það, en þegar ég bauðst til að sækja það, sagði hann mér að hann væri á ferðinni. Kom á daginn (eða kvöldið ef út í það er farið) að hann væri í þessum töluðu orðum að keyra Kaplaskjólsveginn, og gæti verið komið til mín og verið snöggur að því. Varð það úr að við mæltum okkur mót úti á bílastæði mínu, og tók ég þar á móti tegurheftinu, vitandi að sálu minni væri hólpið. Telst þetta vera saga til næsta bæjar þar sem ekki er á hverjum degi sem að menn eru að rúnta um með tegurhefti í bílnum, og hvað þá í minni götu þegar mest þarf á að halda. Lifðu menn nú hamingjusamir til æviloka.

Lýkur nú sögustund Heimsborgarans.

Engin ummæli: