sunnudagur, ágúst 29

Stone Roses fíkill?



Það ber vott um hrifningu mína á þessari hljómsveit í augnablikinu að ég hlakkaði til að komast heim úr teiti nokkru í gærkvöldi til að hlusta á hana.

Hljómsveit, plata og lag færslunnar: Bein afleiðing af fyrri efnisgrein...

Saga til næsta bæjar



Hefst nú sögustund Heimsborgarans...

Þannig vill til að skrifstofa Skólafélagsins er nú komin í nýja húsið á Amtmannsstíg. Föstudaginn síðasta hélt ég á rölt um miðbæinn eftir skóla (og nokkurt stúss þar á eftir) og hélt það þjóðráð að skilja töskur mínar eftir á skrifstofunni, og ná svo í þær daginn eftir. Voru samferðarmenn mínir mér sammála um að þetta væri snjallræði, enda ekki lítill farangur sem fylgdi mér þennan dag. Líður nú og bíður, og ætla ég mér svo að komast inn á skrifstofu á laugardeginum. Vill þá ekki betur til en svo að þjófavarnarkerfið blessaða var komið á, og engin leið til að komast framhjá þeim þríhöfða hundi. Leitaði ég því að Hannesi eins og hundur að ljósastaur í Sahara, en ekki fannst tangur né tetur af honum. Var þetta ástand viðvarandi alla helgina, og eftir 11 tíma vinnu í dag sá ég fram á að ná ekki að lesa lexíur mínar fyrir morgundaginn. Hófust nú örvæntingarfullar hringingar út um allan bæ (reyndar aðeins Vesturbæinn (og smá út á Seltjarnarnes)) og virtist enginn getað séð að hinu tignarlega tegurhefti sem til stóð að leysa æfingar úr fyrir morgundaginn.

Ég var orðinn úrkula vonar þegar ég ákvað að síðasta hálmstráið væri að hringa í Kára nokkurn Sigurðsson, og gá hvort að hann væri nokkuð til í sjá af heftinu sínu forkunnarfagra yfir nótt. Var hann meira en til í það, en þegar ég bauðst til að sækja það, sagði hann mér að hann væri á ferðinni. Kom á daginn (eða kvöldið ef út í það er farið) að hann væri í þessum töluðu orðum að keyra Kaplaskjólsveginn, og gæti verið komið til mín og verið snöggur að því. Varð það úr að við mæltum okkur mót úti á bílastæði mínu, og tók ég þar á móti tegurheftinu, vitandi að sálu minni væri hólpið. Telst þetta vera saga til næsta bæjar þar sem ekki er á hverjum degi sem að menn eru að rúnta um með tegurhefti í bílnum, og hvað þá í minni götu þegar mest þarf á að halda. Lifðu menn nú hamingjusamir til æviloka.

Lýkur nú sögustund Heimsborgarans.

Til að fyrirbyggja misskilning



Langar mig að taka fram að Stjörnubátar eru ekki vondir. Þeir eru illir. Mjög illir.

laugardagur, ágúst 28

Heilræði



Ef þið eruð stödd niðri í miðbæ, sama hversu svöng þið eruð, sama hvað ykkur langar mikið í e-ð virkilega sveitt, ekki fara á Stjörnubáta. Mér var illt í maganum eftir að hafa reynt að nærast þar.

Það veit ekki á gott að staðurinn hefur á matseðlinum bát kenndan við róna (Lallabát), sem er einmitt sá bátur sem ég fékk mér. Maður getur nú borðað flest allt undir áhrifum áfengis, en þetta varð mér ofviða.

föstudagur, ágúst 27

Elliot Smith



Magnaður.

miðvikudagur, ágúst 25

Skólinn hefst á nýjan leik



Og ég var víst búinn að lofa einhverjum að koma með nýja færslu þegar sá atburður mundi gerast. Kemur hún hér með.

Króatíuferðin var skemmtileg. Þarna beitti ég svaðalegasta úrdrætti sem sögur fara af. Þessi stílbrögð í íslensku, maður kann þetta allt...

Upp er komið vandamál. Óargalýður sem kennir sig við eðlisfræðideild II hefur hertekið stóran hluta G-stofu, sem er merkilegasta stofa skólans, enda hefur hún hýst Eðlisfræðideild eins lengi og nokkuð gamlir menn muna (I stofan er reyndar líka merkileg, vonandi að maður losni við e-ð leiðindi útaf því að hafa sagt þetta um G stofuna núna). Vandamálið lýsir sér í gífurlegu plássleysi sem hrjáir nemendur þá er sitja tíma í þessari stofu, enda viðbrigði að skyndilega séu þar inni 25 manns í stað 12. Hefur þetta ollið því að ekki er lengur hægt að stunda borðtennis inni í stofunni, en útbúnaður til þess eru einu merkustu gripirnir í sístækkandi safni muna sem nemendur VI.X hafa sankað að sér í gegnum tíðina. Er ljóst að ekki verður lengur við þetta unað, og bið ég lesendur (ef einhverjir eru eftir) vinsamlegast um að koma með lausnir á þessu hvimleiða vandamáli í athugasemdakerfi síðunnar.

Eru annars ekki allir í stuði?

Og jammjammmjammmjammmjammm, næturbloggun hefur göngu sína á ný. Djöfull, ég sem var búinn að ákveða að fara að sofa á skikkanlegum tíma í vetur...