Viðburðarrík Alþingisferð
Í morgun hélt ég ásamt Tómasi Pajdak á fundarpalla Alþingis. Hafði staðið til daginn áður að við mundum hittast þar um kvöldið, en þar sem við vorum sammála um að mesta fúttið væri í umræðu um fundarstjórn forseta, og mestar líkur væru að ná henni á morgnana, sammæltumst við um að mæta kl. 10:30 á Alþingi næsta morgun. Þegar dagurinn í dag rann svo upp hringdi Tómas í mig og ákváðum við að breyta fundartíma okkar til kl. 10:00 ellegar eins snemma og unnt væri.
Ég var mættur eftir smá bílastæðarallý í Þingholtunum á þingpalla um kl. 10:25 og hitti þar fyrir krónprins Pajdakættarinnar á Íslandi. Hafði hann mætt aðeins á undan mér og náð síðustu orðum Helga Hjörvars í umræðu um fundarstjórn forseta. Sá sem stóð upp í pontu þegar ég mætti var Björgvin G. Sigurðsson, sem eins og frægt er orðið ætlaði sér að lesa bókina Frelsið eftir John Stuart Mill. Það kom hins vegar að ljós að hann og Einar Már Sigurðarson ætluðu að skipta bókinni á milli sín, lesa valda kafla í annarri umræðu og klára bókina svo í þeirri þriðju. Hófst þá lesturinn, og inn í hann skaut þingmaður ýmsum athugasemdum. Var lestur hans ekki hápunktur dagsins.
Eftir ræðu Björgvins var næstur í pontu Steingrímur J. Sigfússon, og held ég að enginn hafi gert sér í hugarlund hvílíka bombu hann átti eftir að flytja, þótt vissulega væri vitað að hann væri meðal bestu og skemmtilegustu ræðimanna á Hinu háa Alþingi. Í upphafi ræðu sinnar fór hann fram á að nokkrir hæstvirtir ráðherrar yrðu viðstaddir lok ræðu sinnar, þegar hann hugðist ætla að leggja fram spurningar fyrir þá. Fyrsta bomban kom svo þegar hann gagnrýndi þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að aðhafast ekkert í málinu, og kallaði hann þá hlussur. Var þá hlegið á þingpöllum. Er á leið ræðuna minntist hann á að hann óskaði eftir viðveru ráðherra, og var forsætisráðherra þá kallaður upp í þingkerfinu. Sást Davíð Oddsson svo fljótlega á vappi fyrir utan þingsal, og getum við samferðamaður minn klárlega vottað fyrir það að hann virtist fullfrískur. Hann lét sig þó fljótt hverfa, og sást ekki aftur eins og kunnugt er orðið.
Steingrímur hélt svo ræðu sinni áfram, og varpaði svo fram annarri sprengju þegar rætt var um fréttaflutning fjölmiðla af málinu, og bar fréttaflutningur Morgunblaðsins þar á góma. Vitnaði Steingrímur í leiðara blaðsins og vitnaði í hann en þar stóð meðal annars að allir málsaðilar hefðu sæst á sjónarmið þess í málinu, það eina sem skildi á milli væru 20 prósentustig. Hló þá þingheimur. Var þá hlegið á þingpöllum. Steingrímur benti svo Forseta Alþingis, sem þá var Halldór Blöndal, að lesa þennan leiðara, enda væri Halldór sérstakur áhugamaður um Morgunblaðið. Sagðist Halldór, sem var með Moggann hjá sér og var að fletta honum, þá vera að leita að þessum ákveðnu skrifum. Þá mælti Steingrímur: "Þetta er leiðarinn. Hann er venjulega í miðopnunni." Var þá hlegið á þingpöllum. Ræðu Steingríms miðaði svo áfram markvisst, og kom með marga góða punkta í henni, t.d. afhverju viðskiptaráðherra hefði reynt að sameina ríkisbankana fyrst að hún væri svona mikið á móti samþjöppun. Þeir hefðu virkað vel ef að stjórnarþingmenn mundu e-n tímann skipta um skoðun. Þegar kom að lokum ræðunnar var enginn þeirra sem hann hafði óskað eftir að yrðu viðstaddir mættur í þingsal. Bárust þær fréttir frá forseta þingsins, sem þá var Guðmundur Árni Stefánsson, að forsætisráðherra væri læstur inni í fundarherbergi á mjög mikilvægum fundi. Fór Steingrímur þá fram á að hlé yrði gert á fundinum, og reynt yrði að ná í forsætisráðherra á meðan á hléinu stæði. Varð fundarstjóri við þessari beiðni.
Nújæja, í fundarhléi ræddum við Pajdak af kappi um nýliðna atburði sem gerst höfðu, og fullir eftirvæntingar biðum við eftir því að sjá framhaldið. Nú var fundur settur aftur, og var sú nýbreytni tekin upp að umræða um fundarstjórn forseta var tekin upp í miðri ræðu þingmanns. Sá fyrsti til að hafa orð á þessi var Jóhann Ársælsson, og var hlegið á þingpöllum þegar hann gerði fundarmönnum þetta ljóst. Fjörugar umræður spunnust um fundarstjórn og skemmtilegast var þegar Jón Bjarnason mætti upp í pontu og lagði það til við fundarstjóra að matarhléi þingmanna yrði flýtt til 11:30. Var þá hlegið á þingpöllum. Fundarstjóri hafnaði beiðninni. Steingrímur steig loks aftur upp í pontu, og nú fór að draga til tíðinda.
Það leyndi sér ekki að Steingrímur var reiður. Reiður yfir vanvirðingunni sem ráðherrar sýndu alþingismönnum. Reiður yfir því hvernig Davíð Oddsson reyndi að fara með Alþingi eins og gólftusku líkt og hann hafði gert við borgarstjórn. Hann húðskammaði þingmenn stjórnarflokkanna, og fannst lítið til þess koma aðeins einn þingmaður þeirra flokka hafði kveðið sér til hljóðs. Ekki fannst honum heldur mikið koma til þeirrar ræðu, en hann kallaði ræðu hans aularæðu. Var þá hlegið á þingpöllum. Steingrímur vatt máli sínu næst að forsætisráðherra, rifjaði upp þegar Davíð Oddsson leysti upp Alþingi fyrir tíma fram þegar að þingmenn sýndu honum mótspyrnu og fleiri afrek á ferli hans, meðal annars metasöfnun hans á stjórnarskrárbrotum. Enn lét Davíð ekki sjá sig, en eins og áður segir í þessari færslu hafði Davíð áður sést á vappi á Alþingi, og var ekki á öðru að sjá en að hann væri fullfrískur. Ég og Tomasz H Pajdak erum tilbúnir til að ábyrgjast það að hann hafi verið á vappi og litið út fyrir að vera bráðfrískur ef vitna verður krafist fyrir dómstólum. Steingrímur dró því þá ályktun að forsætisráðherra þyrði einfaldlega ekki að eiga orðastað við sig. Mælti hann þá þessi orð, sem verða lengi höfð í minnum manna:
"Og það skal þá standa, að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla, að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig!"
Var þessi Alþingisferð sú skemmtilegasta og jafnfram merkilegasta sem ég hef farið í, og ekki miklar líkur á því að hún verði toppuð. Gef ég henni fullt hús, eða 100%
Og munið, að þið hafi hvergi fengið jafnítarlega lýsingu á atburðum á Alþingi dag eins og á þessari síðu.
http://rostungurinn.blogspot.com - þar sem málin eru krufin til mergjar!