Það hlaut að koma að því...
Svo virðist sem heimsókn mín á Alþingi í dag eftir jarðfræðiprófið hafi tendrað hinn gamla bloggneista í hjarta mínu á ný, því í fyrsta skipti í langan tíma ætla ég mér að rita færslu sem í eru fleiri en þrjár málsgreinar.
"Um hvað ætlar Ásgeir að skrifa núna?" kynnuð þið að spyrja. "Ég skal segja ykkur að það!" mun ég svara. Ég ætla að skrifa um nýjasta æðið á Íslandi, Hive.
Takk fyrir
---------------------------
Neinei, ég er að fara á kostum hérna. Nú get ég ekki orða bundist lengur. Hafa þeir menn, sem sjá um þetta fyrirtæki, ekki minnsta vott af siðferðiskennd í hjarta sínu? Eru þeir samviskulausir? Hvernig í ósköpunum getur nokkur maður litið í spegilinn og horft í augu sér ef hann hefur framið gjörðir slíkar sem Hive-menn hafa stundað upp á síðkastið. Spyr sá sem ekki veit.
Ég er að sjálfssögðu að fárast yfir íslenskunni í auglýsingum Hive-manna, eða réttara sagt, skortinum á henni. Nú er víst að Sveinbjörn Egilsson og Jónas Hallgrímsson hringsnúast líkt og villisvín á teini (allt í lagi, ósmekkleg líking) í gröf sinni yfir þeirri síbylju sem yfir landann gengur þessa dagana. Varla má kveikja á útvarpinu lengur, hvað þá ganga um götur borgarinnar, án þess að við manni blasi: "FRÍTT DOWNLOAD" eða þá að maður heyri auglýst "[frítt dánvlód]". Ljóst er að sómatilfinning þessara manna hvarf fyrir löngu síðan, ef hún þá nokkurn tímann hefur verið til. Svona vinnubrögð eru til skammar. Sæmd þeirra Hive-manna er horfin, og verður ekki úr helju heimt fyrr en þeir sjá sóma sinn í því að taka upp fallegra mál í auglýsingum sínum. Næst þegar ég heyri auglýsingu frá þeim glymja í útvarpinu vil ég heyra auglýst "[frítt niðurhal]". Næst þegar ég tek strætó vil ég sjá auglýst með stórum stöfum FRÍTT NIÐURHAL. Ég lýsi hér með í lokin yfir megnrum ímugusti á Hive-menn og þær auglýsingar sem þeir hafa látið ganga yfir landann, og stendur þessi ímugustur á þeim þangað til að þessi draumur minn um "FRÍTT NIÐURHAL" rætist.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli